141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[15:52]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann kom inn á það sem blasir við öllum sem skilja og vilja skilja en það er mikilvægi atvinnuuppbyggingar og atvinnusköpunar til að hægt sé að standa undir velferðarkerfinu í landinu.

Hv. þingmaður kom í ræðu sinni inn á skattahækkanir sem snúa að vörugjöldum og tollum á bíla og áhrif þeirra. Því langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að ríkisstjórnin hefur í raun og veru hefur gert atlögu að öllum undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar. Það endurspeglast í nánast engri atvinnuvegafjárfestingu sem kemur fram í hagspá og þær tölur staðfesta afleiðingarnar af þessari stefnu ríkisstjórnarinnar.

Nú var varað mjög við því að fella niður þær ívilnanir sem bílaleigurnar t.d. höfðu. Þær gerðu mönnum kleift að endurnýja bílana hraðar og ekki þurfti að setja svona hámarksgjald eins og var hér í eina tíð. Menn sögðu: Ef þessar ívilnanir falla niður þurfum við að setja hámark vegna þess að við getum ekki endurnýjað bílana eins hratt. Þá komu fram miklar áhyggjur um að þetta hefði mjög skaðleg áhrif á ferðaþjónustuna og uppbyggingu hennar á svæðum sem eru lengst frá höfuðborgarsvæðinu vegna þess að menn mundu setja ákveðinn hámarksfjölda kílómetra á dag. Útlendir ferðamenn mundu halda sig innan þeirra marka og keyra kannski bara í kringum Stór-Reykjavíkursvæðið, nánasta svæðið í kringum það, en færu ekki til að mynda á norðausturhornið, þar sem hv. þingmaður þekkir mjög vel til. Hefur hv. þingmaður áhyggjur af því að þetta verði reyndin eins og búið er að vara við? Þetta mun auðvitað torvelda þá atvinnuuppbyggingu sem einmitt sárvantar í hinum dreifðu byggðum á ystu stöðum úti á landsbyggðinni, eins og á Norðausturlandi.