141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[15:57]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Það er auðvitað mjög athyglisvert sem hv. þingmaður bendir réttilega á, þetta skilningsleysi stjórnvalda til atvinnuuppbyggingar og atvinnusköpunar og þar með atvinnuvegafjárfestingar og þar fram eftir götunum. Við getum tekið sjávarútveginn, stóriðjuna, ferðaþjónustuna — það er búið að gera atlögu að öllu.

Það sem er þó verst að mínu mati er þessi framkoma. Við munum alveg hvernig hefur verið komið fram við stóriðjuna, menn halda því fram að samningar hafi verið sviknir og ætla að fara í málaferli. Við þekkjum öll sjávarútvegsfrumvörpin sem ekkert samráð er um og fá alltaf falleinkunn, við þekkjum það allt saman.

Síðan virðast þessi stjórnvöld ekki læra neitt af reynslunni. Sjáum bara hvernig var komið fram við ferðaþjónustuna, hækkunum var bara skellt fram. Aðferðafræðin er alltaf sú sama, það er sett fram einhver risastór tala um alveg svakalega skattlagningu og svo er bakkað og sagt: Eruð þið enn að röfla yfir þessu? Þetta er ekki nema svo og svo mikið af því að við erum búin að lækka töluna frá þeirri sem við lögðum fyrst fram. Það er þetta viðhorf ríkisstjórnarinnar til atvinnuuppbyggingarinnar sem er auðvitað mjög slæmt.

Síðan sér maður fréttir erlendis frá þar sem þjóðhöfðingjar á Norðurlöndunum til að mynda koma fram á aðalfundum hjá atvinnulífinu og ávarpa þær samkomur og tala um hversu mikilvægt sé að atvinnulífið blómstri og dafni til að hægt sé að standa undir velferðarkerfinu, velferðarþjónustunni, hægt að greiða ellilífeyrisþegum, öryrkjum og allt sem því fylgir. Þetta er allt annað viðhorf.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála mér um þetta skeytingarleysi. Núverandi stjórnvöld sem ráða ríkjum í landinu líta bara þannig á að það sé annarra að skaffa þeim tekjur, tekjur sem þau hafa vit á að þeirra mati til að ráðstafa. Það skiptir engu máli hvaða umhverfi þau eru að búa til, það er bara annarra að skaffa þeim tekjur.