141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[16:01]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umræðu um breytingu á tollalögum, lögum um vörugjald og lögum um virðisaukaskatt er jákvætt mál hvað það varðar að verið er að bregðast við erfiðri stöðu íslenskra fyrirtækja, erfiðleikum þeirra við að standa skil á sköttum og skyldum og reyna að gera þeim það auðveldara í framkvæmd. Það er rétt að hafa í huga að í raun og veru verður sami vandi áfram uppi þótt búið sé að dreifa gjalddögunum, vandamálin eru áfram hin sömu. Svona frumvarp er einungis leið til þess að lifa við vandamál, en leysir þau ekki. Þó við getum öll verið sammála um efni þess, enda sé ég ekki betur en að þingmenn úr öllum flokkum hafi skrifað upp á nefndarálitið, breytir það því ekki að þetta er plástur. Þetta er ekki lækning heldur leið til að lifa með vandamálunum. Það er auðvitað stóri vandinn í allri umræðunni að í stað þess að ráðast að rótum vandans með lagasetningu, of lítill hagvöxtur er vandinn sem við er að etja, þá reynum við að finna leið til að lifa með honum.

Ég vil reyndar taka undir þau sjónarmið og þær spurningar sem fram hafa komið hér í umræðunni um hvort ekki sé rétt að hafa fyrirkomulagið sem verið er að leggja til varanlegt, hvort nauðsynlegt sé að gera þetta á hverju ári. Það er skynsamlegt að reyna að hafa þetta sem hentugast og þénugast fyrir fyrirtækin. Ég sé ekki annað en að álit fjármála- og efnahagsráðuneytisins sé að þetta sé að kostnaðarlausu fyrir ríkissjóð, þá er um að gera að reyna að hafa kerfið og fyrirkomulagið eins liðlegt og hægt er, úr því það kostar ekki ríkissjóð í útgjöldum.

Aftur að stöðu efnahagsmála. Fyrirtækin eiga erfitt með að standa í skilum vegna þess að það eru gjaldþrot og samdráttur. Viðskiptavinir draga úr pöntunum sínum. Það verður minna umleikis, umsvifin eru minni. Þar með vex ekki kaupmáttur almennings. Hætta er á að þetta verði að einhvers konar vítahring sem er keyrður áfram af víxlverkan verðlags og launa. Því miður, virðulegi forseti, bendir margt til þess að við séum á leið inn í slíkt. Sá forni fjandi þessa lands, þessi margfræga víxlverkan, er farin að láta á sér kræla. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að oft finnst mér eins og menn hafi gleymt hvað það var sem keyrði áfram þá þróun hér á árum áður.

Hvað var það, virðulegi forseti? Jú, menn lentu í því að launin hækkuðu umfram framleiðniaukninguna, það var ekki verðmætasköpun að baki launahækkunum sem keyrði fram verðhækkanir, sem kölluðu á gengislækkun, sem knúði fram verðhækkanir, sem kölluðu á launahækkanir, sem kölluðu á verðhækkanir, sem kölluðu á gengishækkun, svo gengisfellingu og svona gekk þetta hring eftir hring. Launin hækkuðu um hundruð ef ekki þúsundir prósenta en kaupmátturinn hreyfðist varla.

Það er það sem vofir yfir okkur, það er vandinn. Við erum að sigla inn í það, því miður.

Við þessu hefur ítrekað verið varað hér á Alþingi. Aftur og aftur hefur verið bent á að ef við breytum ekki um kúrs mun þetta fara svona og almenningur er löngu orðinn uppgefinn á þeim samdrætti sem verið hefur. Menn krefjast auðvitað hærri launa, bera sig saman við aðra, við þekkjum hinar frægu samanburðarstéttir þar sem menn skoða þær kjarabætur sem öðrum hefur tekist að vinna sér inn og gera kröfu um hið sama og jafnvel meira. Allt eru þetta þekkt stef. Eina leiðin út úr þessu er að breyta um kúrs og miða allt okkar starf við að auka framleiðsluna og auka framleiðnina þannig að hver klukkustund sem unnin er skili meiru en áður. Þannig getum við hækkað launin án þess að verðbólga hljótist af.

Ég get ekki orða bundist, virðulegur forseti, því mér finnst nákvæmlega enginn áhugi vera á stjórn efnahagsmála nú á lokadögum þessarar ríkisstjórnar. Það er eins og menn séu búnir að gefa þetta frá sér. Það er eins og menn hafi gefist upp á þessu verkefni og ætli sér bara að bíða kosninga. Virðulegi forseti, hver mánuður skiptir máli. Fram undan eru kjarasamningar á almennum markaði. Það þarf að undirbyggja þá. Áætlanir sem aðilar vinnumarkaðarins geta stuðst við þegar þeir setjast niður og semja um kaup og kjör þurfa að liggja fyrir. Áætlanir þurfa að vera til um það hvernig við ætlum að halda ríkisútgjöldunum innan þess ramma sem langtímaáætlun í ríkisfjármálum gerir ráð fyrir þannig að aðilar vinnumarkaðarins og allir aðrir geti séð hvernig menn ætla sér að fara með ríkissjóð. Ekki síður áætlanir um hvernig okkur mun takast það sem skiptir mestu máli, að láta hagkerfið vaxa og draga úr skuldsetningu ríkissjóðs um leið. Þetta er algjört lykilatriði.

Virðulegi forseti. Þótt ég sé afskaplega ánægður með að niðurstaða skuli vera komin varðandi fjárfestingar á Bakka, eftir henni hefur verið beðið mjög lengi, þá er það mál allt nokkuð til umhugsunar.

Virðulegi forseti. Langan tíma hefur tekið að fá fjárfesta til að koma þar inn. Nú hefur það loksins tekist, þá er áhugavert að skoða á hvaða forsendum og hvað þurfti til til þess að sá fjárfestir sem um ræðir tók slíka ákvörðun og var viljugur til að festa fé sitt í atvinnurekstri norður í landi. Það þurfti að fella niður tryggingagjaldið. Það þurfti að lækka tekjuskattinn niður fyrir þann ramma sem var lagt upp með varðandi ívilnanir í fjárfestingum.

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því að sérstaklega var tekið fram að menn gætu treyst því að 15% af þeirri prósentu sem lagt var upp með yrði ekki hnikað og ekki breytt. Menn hafa gefið nokkurs konar tryggingu fyrir breytingum á hinu pólitíska sviði, fyrir pólitískri áhættu.

Ríkisstjórnin ákvað að gera þetta. Hún ákvað að mæta þessu einstaka fyrirtæki með þessum aðgerðum. Hún ákvað að fella niður tryggingagjaldið og að lækka tekjuskattinn. Innan ríkisstjórnarinnar hefur myndast skilningur á því að til þess að fyrirtæki fjárfesti skiptir gríðarlega miklu máli hverjar álögurnar eru og hvert skattumhverfið er. Fyrir fyrirtæki sem þarf að ráða margt fólk í vinnu skiptir gríðarlega miklu máli hvert tryggingagjaldið er.

Um það hafði verið samið við aðila vinnumarkaðarins að tryggingagjaldið á almenn fyrirtæki á Íslandi yrði lækkað frá því sem nú er. Það er mjög mikilvæg aðgerð, þar með yrði kostnaður á hvern starfsmann lægri og þar með yrði auðveldara fyrir fyrirtæki að ráða fólk. Á þetta hefur margsinnis verið bent, en því miður var þetta ekki gert nema í tilfelli þessa eina fyrirtækis. Mér er skapi næst að halda að ástæðan fyrir því sé sú að forustumenn úr ríkisstjórninni settu sig inn í rekstrarforsendur þessa tiltekna fyrirtækis og áttuðu sig á því að til að þessi fjárfesting gæti átt sér stað þyrfti að koma til lækkun á sköttum og skyldum sem á fyrirtækin og fjárfestingarnar yrði lagt.

Virðulegi forseti. Málið er að það á ekki bara við um þetta fyrirtæki. Um leið og menn kynna sér málin, hefja sig upp úr átakastjórnmálunum, hefja sig upp úr einhvers konar hreintrúarstefnu um að það sé fyrirtækjunum hollt að borga sem hæsta skatta, það sé einhvers konar dyggð, átta þeir sig á því að það þarf að lækka álögurnar, rétt eins og menn áttuðu sig á því norður á Bakka.

Ég á mér þá ósk að ríkisstjórnin setjist niður með sem flestum fyrirtækjum á þeim dögum sem hún á ólifað og setji sig inn í fjárfestingaráætlanir þeirra. Þá er ég viss um að þar muni hún sjá nákvæmlega sömu mynd og blasti við á Bakka. Kannski er ekki nauðsynlegt að fella alveg út tryggingagjaldið eins og gert var í tilfelli Bakka, en með því að lækka það eins og um var samið og stefnt var að og með því að lækka álögur á fyrirtækin munum við fá aukna fjárfestingu. Þegar við fáum auknar fjárfestingar fáum við aukinn hagvöxt, aukna verðmætasköpun og þá getum við staðið undir hækkun launa. Þá þurfum við ekki lengur að ræða í þinginu um aðgerðir til þess að bregðast við fyrir fyrirtæki sem geta ekki staðið í skilum, sem eiga erfitt vegna þess að ekki er nægur hagvöxtur og vegna þess að samdrátturinn er á leiðinni.

Virðulegi forseti. Það er það sem við ættum að vera að ræða hér. Ekki plástra heldur lækningu, ekki að reyna að lifa með heldur að breyta.

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á tölum sem bárust frá Hagstofu Íslands í dag. Það sækir að mér sú hugsun að ríkisstjórnin hafi gefið frá sér alla stjórn efnahagsmála. Engra aðgerða er að vænta þaðan. Á sama tíma fáum við tölur um að hagvöxturinn á árinu 2012, sem við héldum að ætti að verða á bilinu 2,5–3% og lögðum til grundvallar í okkar áætlunum og okkar umræðu, var samkvæmt niðurstöðu Hagstofunnar 1,6%. Það er langur vegur á milli. Þegar maður skoðar tölurnar og horfir til baka og horfir á atvinnuleysistölurnar sést auðvitað að hagvaxtarhorfurnar voru ofmetnar, þær gátu ekki staðist.

Ég vek athygli á og rifja upp ummæli í Peningamálum Seðlabankans, þar sem því var velt upp hvort kerfisbundið ofmat á hagvexti gæti verið hér, meðal annars vegna þess að til þess að standa undir þeim hagvexti sem menn töldu að væri í pípunum þyrfti að vera um að ræða alveg gríðarlega mikla aukningu á framleiðni og engar sérstakar forsendur voru til að ætla að það væri framleiðniaukning á leiðinni.

Það reyndist rétt. Hagvöxturinn varð miklu minni en menn höfðu áætlað. Gríðarlegur munur er á því að hagvöxturinn sé 3% og hann sé 1,6%. Ef 1,6% hagvöxtur heldur áfram þá munum við sjá enn fleiri frumvörp um það hvernig við eigum að lifa með vandanum. Þá dugar ekki bara þetta, margt meira þarf til að hjálpa fyrirtækjunum að lifa með vandanum.

Virðulegi forseti. Hversu oft skyldi vera búið að tala um þetta hér úr þessum ræðustóli? Hversu oft skyldi vera búið að vara við þessu? Hversu oft skyldi vera búið að lýsa áhyggjum af því að atvinnuvegafjárfestingin er ekki að ná sér upp? Hún er allt of lág.

Auðvitað á maður ekki að draga stórar ályktanir út frá tölu fyrir einstaka ársfjórðunga. Það er hættulegt, virðulegi forseti, menn geta ekki dregið of miklar ályktanir út frá slíku. Þó er þess virði að nefna að í frétt Hagstofunnar frá því í morgun kemur fram að fjárfestingin hafi dregist saman um 23% á 4. ársfjórðungi ársins 2012. Enn og aftur. Ekki er ástæða til að draga um of ályktanir af slíkum tölum. Það segi ég, virðulegi forseti, að ég vildi að þetta hefði snúið akkúrat öfugt og við værum að ræða að það sé ekki ástæða til að vera of bjartsýnn út af slíkri tölu. En hér er það öfugt, virðulegi forseti, svo það er áhyggjuefni hver fjárfestingin hefur verið undanfarin missiri. Þetta er ekki að ganga.

Virðulegi forseti. Þetta er einfalt mál. Ef fjárfesting atvinnuveganna fer ekki upp, ef hún eykst ekki að hundraðstölu miðað við þjóðarframleiðsluna, munum við ekki ná þeim hagvexti sem við þurfum. Þá mun þetta smám saman dragast saman, verða minna og minna og vandamálin í ríkisrekstrinum munu hrannast upp. Þetta verður erfiðara og þyngra með hverju missiri sem líður.

Virðulegi forseti. Það er hægt að breyta þessu. Þetta er ekkert lögmál. Þetta er ekki eitthvað sjálfgefið.

Á fundi Samtaka atvinnulífsins hér fyrir skömmu kom fram hjá forustumanni í atvinnulífinu að það væri tvennt sem virkilega væri vandamál hér hvað varðaði fjárfestingu. Annars vegar gjaldeyrishöftin — og ég fullyrði, virðulegi forseti, það er hægt að leysa það mál — og í öðru lagi pólitísk óvissa — það er alveg öruggt að hægt er að leysa það vandamál. Menn vita ekki og geta ekki treyst því hvaða rammi verður um efnahagsstefnuna og um skattamálin. Við höfum verið að rífast um alla stjórnarskrána undanfarin missiri og undanfarin ár, ekki bara einstaka þætti hennar, heldur alla stjórnarskrána. Það er og hefur verið hörð deila um auðlindaákvæðin sem eru grundvallaratriði fyrir allri efnahagsstarfsemi hér í landinu.

Til dæmis hefur verið lagt til, og hefur staðið hér lengi og er nýbúið að breyta þar út á, að taka ætti, eins og kallað var, fullt gjald fyrir öll afnot af auðlindum. Hvaða skilaboð eru það til þeirra sem fjárfesta í nýtingu auðlindanna ef löggjafinn er að hugsa um það í alvörunni að setja í stjórnarskrá að fullt gjald verði tekið? Án þess að útskýra það nákvæmlega, þannig að menn geta lesið að það þýði að allur arður af slíkri starfsemi verði innheimtur í ríkissjóð. Ætli menn verði viljugir til þess að fjárfesta til dæmis í skipum við slíkar aðstæður? Ætli menn hugsi sig ekki tvisvar um áður en þeir fjárfesta í nýjum vinnslulínum þegar þeir vita að annað eins geti hangið yfir þeim? Það er akkúrat þetta, virðulegi forseti, enn og aftur.

Hér erum við með frumvarp sem snýr að því hvernig við ætlum að lifa við vandann. Væri ekki meiri bragur að því að þessi ríkisstjórn notaði síðustu daga þingsins til þess að ræða við okkur um aðgerðir í efnahagsmálum, meðal annars í kjölfar þessarar niðurstöðu frá Hagstofunni? Ég og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, höfum beðið um að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra komi til þingsins og flytji skýrslu svo fljótt sem auðið má verða um þá niðurstöðu sem blasir við í tölum Hagstofunnar.

Það verður að bregðast við, virðulegi forseti. Það er ekki hægt, þó stuttur tími sé eftir af þinginu og þó stutt sé til kosninga, að segja: Við ætlum ekki að gera neitt. Við ætlum ekki að móta okkur neina stefnu við þessu, nein svör við þessu, við ætlum bara að láta reka á reiðanum. Það er ekki hægt að gera það, virðulegi forseti, því enn og aftur, fram undan eru kjarasamningar. Við vitum um þann óróa sem hefur verið hjá hinu opinbera hvað varðar kjaramálin. Við vitum að ef atvinnulífið getur ekki farið að treysta því að breytt verði um stjórnarstefnu og menn geti farið að vinna eftir fyrir fram settum leikreglum sem menn vita og geta treyst að standa, þá mun þessi vandi sem við er að etja magnast og aukast stig af stigi. Hagspár sem áður sögðu 3% rætast í 1,6%. Hagspár sem áður sögðu tvö komma eitthvað prósent munu rætast í einu prósenti. Svona gengur koll af kolli þangað til við sitjum alveg pikkföst og verðbólgan er á uppleið.

Þetta þarf ekki að vera svona, virðulegi forseti. Ísland á nefnilega heilmikil tækifæri. Það eru gríðarleg tækifæri og sóknarfæri í atvinnumálum þjóðarinnar, en þessi ríkisstjórn, virðulegi forseti, verður að fara. Ríkisstjórn sem byggir allt sitt á plástrum verður að fara.