141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[16:22]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður kom raunar að nokkru leyti inn á það sem ég ætlaði að spyrja hann út í en ég hef þó áhuga á að fá ítarlegri skýringar á afstöðu hv. þingmanns. Spurning mín varðar þær nýju tölur sem birtust í gær, að mig minnir, um enduráætlaðan hagvöxt á síðasta ári. Þar var engin smáræðisskekkja, í stað þess að vera 2,5% reyndist hagvöxtur hafa verið 1,6%. Ríkisstjórnin státaði sig fyrst af því að hér yrði og síðan af því að hér hefði verið hagvöxtur upp á hátt í 3% á árinu 2012. Það reyndist alrangt.

Ég vil gjarnan fá hv. þingmann til að fara aðeins nánar í, þótt hann hafi komið inn á það eftir að ég bað um andsvar, hvort það kalli ekki í fyrsta lagi á viðbrögð og í öðru lagi endurmat á núverandi áætlunum. Þegar ég spyr um viðbrögð, hvaða viðbrögð kalla þau tilteknu tíðindi á?

Ég er sammála því sem hv. þingmaður hefur farið yfir í grófum dráttum, um mikilvægi þess að bæta aðstæður íslensks atvinnulífs. Ég ætla að fara betur yfir það í ræðu hér á eftir. Hvaða viðbrögð ætti þessi ríkisstjórn að sýna akkúrat núna á síðustu dögum þingsins við þeim alvarlegu tíðindum um að hagvöxtur hafi verið miklum mun minni á síðasta ári en gengið var út frá? Getur ríkisstjórnin brugðist við því með einhverjum hætti á þeim tíma sem hún á eftir? Hvernig ætti hún að bregðast við?