141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[16:24]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Best þætti mér auðvitað að ríkisstjórnin færi frá, kosningum yrði flýtt og ný ríkisstjórn kæmist til valda. Það sem slík stjórn þyrfti að gera strax er að kalla saman alla þá sem mestu skipta í efnahagslífi okkar og sannfæra menn um að þeir tímar séu liðnir að hringlað verði með skattkerfið, að stórkostlegur vafi verði uppi um hvernig staðið verði að nýtingu auðlinda og að öfgasjónarmið um margt muni ráða þar för. Sá tími sé liðinn þar sem allt verður endalaust í uppnámi í sjávarútvegi þjóðarinnar, hinum höfuðatvinnuvegi okkar Íslendinga, að á þingi verði á hverju einasta missiri fram lagt frumvarp til að kollsteypa allri umgjörð þess reksturs. Það muni ekki gerast aftur, og ekki á kjörtímabili nýrrar ríkisstjórnar, að fjármálaráðherra þjóðarinnar segi á fundi þar sem er verið að ræða skattamál, aðspurður hvort menn megi vænta frekari breytinga á skattkerfinu, með leyfi virðulegs forseta: „You ain't seen nothing yet“. Hann sagði það á enskri tungu til að tryggja að erlendir fjárfestar skildu alveg örugglega (Utanrrh.: Og er frægur fyrir.) að það væri þannig að menn gætu ekki treyst því að skattumhverfið á Íslandi sem þeir sæju yrði það sama áður en þeir fjárfestu og eftir að þeir fjárfestu.

Það eru svona hlutir sem skipta miklu máli, að menn treysti því að við stjórnvölinn séu stjórnmálaflokkar og ríkisstjórn sem byggja á festu, en reyna ekki og leggja ekki (Forseti hringir.) kapp á að hleypa öllu upp í loft og gera atvinnulífinu ómögulegt að stunda sínar fjárfestingar.