141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[16:29]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst að þýðingu orða hæstv. fjármálaráðherra sem hann lét falla á ráðstefnu um skattamál sem voru á enskri tungu, með leyfi virðulegs forseta: „You ain't seen nothing yet“. Efnislega mundi það kannski þýða: Þetta var ekkert, bíðið bara. (Gripið fram í: You ain't seen nothing yet.) Svona efnislega.

Hvað varðar spurningar hv. þingmanns til mín um yfirlýsingar hæstv. ráðherra og seðlabankastjóra vil ég taka fram að ég sá ekki betur en að alla vega hvað varðar eina frétt, þ.e. ummæli seðlabankastjóra á Bloomberg fréttaveitunni, hafi komið fram af hálfu seðlabankastjóra að ekki hafi verið haft rétt eftir honum (Gripið fram í.) í þeirri frétt. Ég reikna með að hv. þingmaður hafi verið að velta því fyrir sér.

Ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni að ummæli hæstv. ráðherra margra hverra, einkum og sér í lagi úr Samfylkingunni, hvað varðar stöðu íslensku krónunnar og framtíðarmöguleika okkar með þá mynt í farteskinu hafa ekki verið heppilegar og þá er ekki fast að orði kveðið.

Það er mjög nauðsynlegt að ráðamenn þjóðarinnar sýni að þeir hafi trú á framtíð þjóðarinnar, að þeir hafi trú á því að við getum byggt upp efnahagslífið með okkar eigin mynt. Öll umræðan um ESB strandar á þeirri einföldu staðreynd að þjóðin vill ekkert ganga í bandalagið. Það liggur alveg fyrir. Þá er það svo að við munum búa við íslenska krónu. Ég tel það reyndar heppilegast þegar allt er saman virkt, hún er ekki gallalaus en það eru minni gallar á henni en á því sem ég tel felast í því að ganga í myntsamstarfið innan ESB. Ég veit ekki einu sinni hvernig ESB mun þróast á næstu missirum og árum, ég hef ekki hugmynd um það. Það væri ábyrgðarhlutur að ganga í samband sem ég veit ekkert hvar endar.

Það (Forseti hringir.) er ekki bara að ég telji að koma þurfi á ró og stöðugleika heldur vísa ég líka til áherslu okkar sjálfstæðismanna í efnahagsmálum og efnahagstillagna sem við höfum (Forseti hringir.) sett fram um stöðu lítilla og millistórra fyrirtækja og nauðsyn þess að lækka álögur hér. Ég vil alveg sérstaklega segja (Forseti hringir.) að tryggingagjaldið sem var búið að lofa að lækka og hefur ekki verið staðið við þýðir (Forseti hringir.) áframhaldandi atvinnuleysi.

Virðulegi forseti. Ég biðst velvirðingar á tímanum sem ég hef farið fram úr.

(Forseti (SIJ): Forseti biður þingmenn um að virða ræðutíma.)