141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[16:32]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér mál sem er nokkurs konar bráðabirgðaredding vegna þeirrar stöðu sem íslensk fyrirtæki eru enn í meira en fjórum árum eftir efnahagshrunið. Eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson benti á hér áðan er þetta líklega í fjórða eða fimmta sinn sem slíkt frumvarp er lagt fram. Hvað gefur það okkur til kynna? Jú, það er áminning um að þetta var í fyrstu hugsað sem bráðabirgðaráðstöfun til að bregðast við ástandi sem mundi lagast, þ.e. að menn þyrftu að fá dálítið svigrúm á meðan mestu erfiðleikarnir gengju yfir, svigrúm þangað til aðgerðir stjórnvalda færu að bera árangur og þess vegna var þetta sett á til skamms tíma. Sú staðreynd að menn skuli hafa þurft að setja þetta á aftur og aftur er sönnun þess að áformin og áætlanirnar um aukna hagsæld og meiri stöðugleika hafi ekki gengið eftir. Þær hafa brugðist aftur og aftur. Enda sjáum við, ef við rifjum upp áætlanir þessarar ríkisstjórnar og samstarfsmanna hennar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum frá því í byrjun kjörtímabilsins, að áform um efnahagsuppbyggingu og stöðugleika hafa ekki gengið eftir þó að menn reyni enn þann dag í dag að halda því fram að árangur Íslendinga í efnahagsmálum, eða þessarar ríkisstjórnar, sé meiri en víðast hvar annars staðar.

Það er nú svolítil kaldhæðni í því að það er helst gert með því að bera Ísland saman við evrulöndin og þann vandræðagang sem þau eru föst í og sér ekki fyrir endann á. Ríkisstjórnin, sem er að reyna að komast inn í Evrópusambandið og evruna, réttlætir sjálfa sig með því að hér sé efnahagsástandið þó skárra en á evrusvæðinu. Það er svolítið kostulegt, virðulegur forseti. En í þessari umræðu gleymist hins vegar iðulega hvers vegna hagvöxtur er til að mynda þó heldur hærri hér en annars staðar. Reyndar sáum við í gær að jafnvel þær áætlanir sem fyrst var stefnt að, að jafnvel hinar uppfærðu áætlanir, gengu ekki eftir. Það sama á við með fjárlögin.

Því er haldið fram á hverju ári við gerð fjárlaga að stórkostlegur árangur sé að nást, en svo reynist hallinn á fjárlögum iðulega verða margfalt meiri, aftur og aftur á þessu kjörtímabili, en stjórnvöld höfðu haldið fram þegar þau fengu fjárlögin samþykkt. Svipað virðist vera uppi á teningnum varðandi hagvöxtinn. Það var ekki nema 1,6% hagvöxtur á síðasta ári, það eru ekki góð tíðindi fyrir fyrirtækin sem verið er að reyna að koma til móts við með þessu frumvarpi — koma til móts við að því leyti að verið er að gera þeim betur kleift að dreifa því að fást við vandann yfir lengri tíma, en það er ekki verið að leysa málin til langframa eða gera þeim mögulegt að ráða fleira fólk eða skapa meiri verðmæti. Þetta er enn ein frestunaraðgerðin.

Hvað þýðir 1,6% hagvöxtur? Hann endurspeglar í fyrsta lagi það sem við höfum reyndar séð nú þegar að fjárfesting hefur haldist í sögulegu lágmarki á Íslandi allt þetta kjörtímabil. Hann endurspeglar líka að hér hefur ekki náðst nokkur efnahagslegur árangur sem orð er á gerandi fyrir aðgerðir ríkisstjórnarinnar, heldur þvert á móti. Sá árangur sem þó hefur náðst, sá hagvöxtur sem þó hefur náðst, er til kominn vegna þess að makríll tók upp á því að fara að halda sig meira í íslenskri lögsögu en áður og gengi gjaldmiðilsins féll með þeim afleiðingum að útflutningur hefur styrkst til muna og birtist meðal annars í mikilli fjölgun erlendra ferðamanna. Jafnframt hafa stjórnvöld hvatt fólk og jafnvel sett fólk í þá stöðu að það neyddist til að nýta séreignarsparnað sinn. Sá hagvöxtur sem þó hefur náðst í landinu á undanförnum árum er því ekki til kominn vegna skynsamlegra aðgerða í efnahagsmálum eða skynsamlegrar stefnu, heldur þrátt fyrir þá stefnu sem hér hefur verið rekin, vegna ytri náttúrulegra áhrifa og vegna gjaldmiðilsins sem ríkisstjórnin talar svo illa um og reynir hvað hún getur að farga, þó það liggi reyndar ljóst fyrir, og hafi verið viðurkennt af Samtökum atvinnulífsins, Alþýðusambandinu og fulltrúum Samfylkingarinnar, í nefnd sem fór yfir framtíðarskipan gjaldmiðilsmála, að við mundum þurfa að styðjast við krónuna næstu árin að minnsta kosti.

Ef sú er raunin að við þurfum að styðjast við krónuna hlýtur það eiginlega að segja sig sjálft að menn muni þurfa að nota þann tíma til að renna traustari stoðum undir gjaldmiðilinn, skapa aukinn stöðugleika, svoleiðis að við þurfum ekki eina ferðina enn að greiða atkvæði um frumvarp eins og þetta, frumvarp sem er til þess ætlað að fresta vandanum.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi í ræðu sinni áðan atriði sem er okkur hugleikið, það eru hin miklu földu útgjöld ríkisins. Það er mjög alvarlegt mál hvernig stjórnvöld hafa gengið fram í því að fela útgjöld sem í sumum tilvikum hafa fallið til, en eru í öðrum tilvikum fyrirsjáanleg í framtíðinni. Þau eru falin í fjárlögum og í langtímaáætlanagerð ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta hér í tengslum við stöðu íslenskra fyrirtækja er sú að þegar menn neyðast til að horfast í augu við að þessi földu útgjöld séu staðreynd skerðir það enn svigrúmið til þess að stjórnvöld geti komið á eðlilegu ástandi, til dæmis hvað varðar opinbera fjárfestingu. Þau fyrirtæki sem hafa reitt sig á opinbera fjárfestingu — ég nefni sem dæmi úrbætur í samgöngumálum — hin ýmsu verktakafyrirtæki, í mörgum tilvikum tiltölulega lítil verktakafyrirtæki á landsbyggðinni, hafa átt mjög erfitt með að þrauka undanfarin ár vegna þess hversu lítil fjárfesting ríkisins hefur verið, en sú litla fjárfesting er afleiðing annars vegar af þeirri stefnu sem stjórnvöld reka, hins vegar af efnahagslegri stöðu ríkisins. Það er því mikilvægt að menn horfist í augu við útgjöldin og viðurkenni þau svo hægt sé að gera áætlanir í samræmi við það, líka til þess að menn skynji mikilvægi þess að fara að skapa meiri verðmæti og breyta um stefnu, að menn átti sig á því hversu skaðleg sú stefna sem hér hefur verið rekin undanfarin ár hefur verið og hversu dýr hún hefur verið.

Hér vorum við til dæmis í gær að ræða frumvarp um almannatryggingar og lífeyrisgreiðslur. Þar kom í ljós í frumvarpinu sjálfu, í ábendingum frá fjármálaráðuneytinu, að þau áform sem þar voru kynnt og hafa lengi verið í bígerð og vilji verið fyrir, mundu þýða að áætlanir ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum til næstu ára mundu ekki ganga eftir, stæðust ekki, væru rangar. Það sama á við um ýmis frumvörp sem hafa verið lögð fram hér að undanförnu og fela í sér útgjöld sem menn hafa ekki reiknað með í fjárlögum og annaðhvort falið eða ekki haft hugmynd um að þeir ætluðu sjálfir skömmu síðar að leggja fram í aðdraganda kosninga hin ýmsu útgjaldafrumvörp. Þetta er alvarlegt mál þegar fyrirtæki landsins búa við þá aðstöðu sem þetta frumvarp lýsir, aðstöðu sem kallar á reddingar ár eftir ár.

Það er ekki eins og ríkisvaldið hafi gert mikið annað fyrir fyrirtækin til að gera þeim kleift að starfa eðlilega, ráða fólk til vinnu og framleiða verðmæti en aðgerðir á borð við þessa, frestunaraðgerðir — því miður í þessu tilviki nauðsynleg frestunaraðgerð, en auðvitað hefðu menn átt að leggja meiri áherslu á að hugsa til framtíðar og búa til jákvæða hvata þannig að fyrirtæki gætu ráðið fleira fólk til starfa, gætu ráðist í fjárfestinguna sem er nauðsynleg til þess að skapa þau verðmæti sem ríkisvaldið mun þurfa að taka af til að geta staðið undir þeim skuldum sem ég kom inn á hér áðan.

Sú stefna sem hér hefur verið rekin leiðir til neikvæðrar keðjuverkunar og þetta frumvarp er afleiðing af því; nauðsyn þessa frumvarps er afleiðing af því, skulum við segja. Þetta er því miður ekki eina dæmið um frestunarnálgun ríkisstjórnarinnar þegar kemur að því að taka á vandanum. Þetta birtist okkur á öllum sviðum. Álframleiðendur voru til dæmis látnir greiða skatta fyrir fram mörg ár fram í tímann. Einhvern tímann hefðu það nú þótt tíðindi, virðulegur forseti, ef ríkisstjórn sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefði ekki átt aðild að hefði tekið upp á því að semja við álframleiðendur um að þeir greiddu skatta mörg ár fram í tímann, vel inn á næsta kjörtímabil. Skattar sem áttu að falla til á næsta kjörtímabili — að sú ríkisstjórn sem nú situr, eða situr á tilteknum tíma, skuli taka þá skatta, eitthvað hefðu þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sagt ef ríkisstjórn sem þeir hefðu ekki átt aðild að hefði gert slíkt.

Menn létu ekki þar við sitja, gengu lengra, gengu á lagið og sviku þá samninga sem gerðir höfðu verið, þau loforð sem voru ástæðan fyrir því að stóriðjufyrirtækin féllust á greiða þessa skatta alla fyrir fram. Þetta er í fyrsta lagi mjög ósvífið, virðulegur forseti, en þetta er líka mjög efnahagslega skaðlegt, vegna þess að það ýtir undir þessa óvissu sem við höfum rætt töluvert í dag í tengslum við þetta mál, þessa pólitísku óvissu sem er ein helsta hindrunin þegar kemur að því hvort ráðast eigi í fjárfestingar eða ekki. Það er hin pólitíska óvissa og reyndar líka óvissa um orku í sumum tilvikum, orkuöflun, sem veldur því að menn hafa ekki verið reiðubúnir að ráðast hér í fjárfestingu og ráða nýtt fólk til starfa til viðbótar við þetta óhagstæða skattumhverfi sem ég ætla að koma aðeins inn á á eftir. Því er svo haldið fram að þetta sé allt vegna gjaldmiðilsins, þess vegna hafi fjárfesting verið þetta lítil.

Ef við lítum á staðreyndirnar sjáum við að þetta er ekki rétt. Fjöldinn allur af raunhæfum, litlum, meðalstórum og stórum fjárfestingarverkefnum hefur verið til skoðunar hér undanfarin ár, en hvað eftir annað hafa menn hætt við, annars vegar vegna óvissunnar um orkuöflun og hins vegar vegna pólitísku óvissunnar, sem birtist ekki hvað síst í endalausu hringli með skattkerfið og jafnvel tali um þjóðnýtingu — tali um þjóðnýtingu sem hvergi annars staðar í Evrópu væri rædd í stjórnmálum nú til dags. Það dytti engum það í hug.

Það þarf að leita miklu lengra til að finna lönd þar sem umræðan hefur verið á því stigi sem hún hefur stundum verið hér af hálfu þessarar ríkisstjórnar þegar kemur að atvinnulífinu og atvinnuuppbyggingu. Við sáum það nú síðast þegar nokkrir þingmenn stjórnarliðsins sáu ástæðu til að snúa gjörsamlega út úr tilraun framsóknarmanna til þess að leggja til skynsamlegt ákvæði um þjóðareign í stjórnarskrá, til þess einmitt að hámarka ávinning þjóðarinnar af náttúruauðlindum sínum, því var snúið algjörlega á hvolf. En mér skilst reyndar, sem betur fer, að þessir stjórnarliðar hafi fengið skýringar á því hjá lögfróðu fólki úr eigin flokkum að upphlaupið hafi verið algjörlega á röngum forsendum og að tillagan væri nú kannski ekki svo slæm. Þetta er bara nýjasta dæmið af endalausri röð uppákoma þar sem menn rjúka upp til handa og fóta með ofsafengnu orðavali og öfgakenndum skoðunum og fæla burt alla þá sem hugsanlega hefðu áhuga á að fjárfesta hér í því að auka framleiðslu og fjölga störfum. Stöðugleikinn er grundvallaratriði til að snúa þessari þróun við.

Reyndar kveður nú svo rammt að tilhneigingu stjórnvalda til að ýta undir óvissu frekar en stöðugleika að jafnvel undirstöðuatvinnugreinar þjóðarinnar, þær greinar sem hafa þó verið að halda uppi verðmætasköpuninni í gegnum efnahagsþrengingarnar, verðmætasköpuninni sem nauðsynlegt er að byggja nýsköpunina á, hafa ekki aðeins orðið skotspónn stjórnvalda, heldur í sumum tilvikum beinlínis verið lagðar í einelti. Stefnan hefur ekki verið til þess fallin að auka verðmæti, augljóslega ekki, en ekki heldur til þess fallin að ná fram auknum fjölbreytileika í atvinnulífinu, eða félagslegu réttlæti. Þvert á móti.

Tökum sem dæmi nálgunina í veiðigjaldinu. Þar var notast við fyrirkomulag sem hefur leitt til þess að minni fyrirtæki í sjávarútvegi, lítil fjölskyldufyrirtæki til dæmis, eru sett í vonlausa stöðu þar sem þau þurfa að borga hærri gjöld út af þessu nýja veiðigjaldi en nemur hagnaðinum, þau eru sett í þá stöðu að þurfa að borga með sér, það er ódýrara að hætta rekstri. Þannig eru slík fyrirtæki sett í þá stöðu að neyðast til þess að selja eða að minnsta kosti er skapaður mikill þrýstingur á að þau verði seld stærri fyrirtækjunum. Afleiðingin verður sú, ef fram heldur sem horfir eins og stefnan hefur verið, ef hún héldi áfram, að sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi yrðu örfá og stór. Það er afleiðingin af hinni miklu stefnubreytingu þessarar ríkisstjórnar í sjávarútvegsmálum. Birtingarmyndin er hér: Enn og aftur nauðsyn að gefa fyrirtækjum svigrúm til þess að fresta greiðslu opinberra gjalda.

Annar mikilvægur þáttur í þessu með stjórnmálalegan stöðugleika er, eins og ég kom nú aðeins inn á, skattkerfið. Þar er nú varla hægt að tala um mikinn stöðugleika, þegar á einu kjörtímabili hafa verið gerðar, síðast þegar var talið, yfir 200 breytingar á skattkerfinu og auðvitað fyrst og fremst til hækkunar skatta og aukins flækjustigs. Bara það að finna út úr því hvernig skattkerfið virkar til að geta staðið í skilum með alla hina nýju og háu skatta — bara sú vinna er orðin mjög stór útgjaldaliður hjá mörgum fyrirtækjum, sérstaklega þeim minni og meðalstóru sem þurfa að ráða til sín sérfræðinga eða láta starfsmenn sína vera meira og minna upptekna í vinnu við að finna út úr því hvernig í ósköpunum þeir eigi að standa í skilum samkvæmt nýjustu breytingum á kerfinu, fyrirtæki sem gætu ella verið að vinna við að búa til verðmæti sem hægt væri að skattleggja á tiltölulega einfaldan og skynsamlegan hátt.

Það er ekki bara skattkerfisflækjurnar sem hafa sett okkur í þessa stöðu og leitt fram þetta frumvarp í enn eitt skiptið, það eru líka aðrar flækjur sem fyrirtæki þurfa að fást við. Mér sýnist, virðulegur forseti, að ég verði að taka þann þátt fyrir í næstu ræðu, vegna þess að allt í einu er tími minn svo gott sem á þrotum. Þess vegna bið ég virðulegan forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá, því að ég er nú rétt búinn að komast í gegnum innganginn og á eftir að fjalla um fjölmörg atriði önnur sem varða þetta frumvarp og ástæðurnar fyrir því að menn neyðast til að leggja það fram hér — ástæðurnar fyrir því að menn eru enn í frestunaraðgerðum í stað þess að vera komnir í sóknaraðgerðir.