141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[16:52]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann minntist einmitt á hversu mikilvægt er að skilaboð stjórnvalda séu skýr og að þessi pólitíska óvissa væri ný hjá stjórnarflokkunum og margir hæstv. ráðherrar gerðu sér ekki grein fyrir hvað hún þýðir.

Hv. þingmaður nefndi nokkuð mjög athyglisvert sem var þegar hæstv. ráðherra stóð í tröppum Stjórnarráðsins og sagði: Jú, það er reyndar rétt að þegar Geysir Green Energy keypti hlut í Orkuveitunni á Suðurnesjum var það niðurstaða sérstakrar nefndar sem var lögskipuð um það að kaupin hafi verið gerð á réttan hátt. Þá kom setningin: Við erum að spá í að skoða þjóðnýtingu.

Það hefur engin smá áhrif út á við. Ég man að ég heyrði í kunningja mínum sem þekkti mann sem starfar við að kynna erlendar fjárfestingar í Kanada. Hann spurði mig hvor við værum orðin endanlega brjáluð að senda svona skilaboð. Það er náttúrlega alveg grafalvarlegur hlutur að hæstv. forsætisráðherrann skyldi standa á tröppum Stjórnarráðsins árið 2013 og tala um þjóðnýtingu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sé mér ekki sammála um hversu mikilvægt er að þeir sem stýra landinu á hverjum tíma skynji mikilvægi þess að reyna að hlúa að atvinnuuppbyggingunni, atvinnulífinu, alveg sama hvort það eru lítil fyrirtæki, stór eða meðalstór, í staðinn fyrir að vera alltaf í þessu stríði. Getur hv. þingmaður tekið undir það?

Við sjáum í endurskoðuninni á hagvaxtarspánum að gert var ráð fyrir 2,5% hagvexti á árinu 2012 og hæstv. forsætisráðherra er margbúinn að tyggja í þessum sal að við stöndum okkur svo vel að hagvöxturinn sé þessi. Niðurstaðan er komin og hagvöxturinn er 1,6%. Gæti það ekki verið hluti af skýringunni að auðvitað vantar alla atvinnuvegafjárfestingu, eins og svo margt annað?