141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

100 ára afmæli kosningarréttar íslenskra kvenna 19. júní 2015.

567. mál
[17:48]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Herra forseti. Það er mjög viðeigandi að ræða þessa þingsályktunartillögu 8. mars, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, þingsályktunartillögu sem mikil samstaða ríkir um og hefur verið lögð fram og afgreidd frá nefndinni í miklu samkomulagi. Ég vil þakka flutningsmönnum tillögunnar og nefndinni fyrir þessa afgreiðslu og get tekið heils hugar undir ágæta ræðu hv. framsögumanns nefndarálitsins.

Það var mjög minnisstætt í júlí sl. þegar við komum saman í boði hæstv. forseta Alþingis, þingkonur og varaþingkonur. Öllum konum sem tekið höfðu sæti á Alþingi var boðið í tilefni þess að 90 ár voru liðin frá því að Ingibjörg H. Bjarnason var kjörin til þings og það var mjög merkilegt. Ég man ekki töluna á okkur konunum sem voru þar en það var mögnuð stund að vera í þessum góða og glæsilega hópi. Ég hlakka til að upplifa þennan undirbúning og hátíðarhöldin og tel mikilvægt og fagna því sérstaklega að gengið sé svo rösklega til verks og lagður metnaður í að minnast þessara tímamóta. Það var stór áfangi í baráttu íslenskra kvenna sem stendur til að minnast hér árið 2015.

Fyrirvari hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í allsherjar- og menntamálanefnd, lýtur að fjármögnun verkefnisins og vil ég í hennar fjarveru ítreka hann og leggja til nefndarinnar að gæta ráðdeildar í undirbúningi hátíðarhaldanna. Hægt er að gera það ásamt því að halda veglega upp á þessi tímamót. Ég ítreka þakkir mínar til forsætisnefndar og formanna þingflokka sem mér sýnist vera flutningsmenn þessarar ágætu tillögu.