141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

100 ára afmæli kosningarréttar íslenskra kvenna 19. júní 2015.

567. mál
[17:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Þetta mál segir okkur og sýnir hversu ótrúlega stutt er síðan konur fengu þann sjálfsagða rétt að fá að kjósa eins og karlar. Það segir okkur líka hversu ótrúlega stutt er síðan við fórum að gæta jafnréttis milli kynjanna eins og vera ber. Það er bæði réttlætismál að konur og karlar séu meðhöndluð eins og það er líka efnahagsmál, því þannig er tryggt til dæmis varðandi ráðningar að besti og hæfasti einstaklingurinn sé ráðinn í stöður.

Herra forseti. Því jafnrétti er ekki náð enn þá. Enn er ekki búið að ná fullu launajafnrétti og dapurlegt er hversu erfiðlega gengur að ná því. Búið er að setja upp alls konar hluti með lagasetningu, búið er að jafna stöðu kynjanna að fullu með lögum, fæðingarorlofið var sett að frumkvæði Sjálfstæðisflokksins á sínum tíma til þess að gera karlmenn jafndýra og konur á vinnumarkaði til þess að jafna launamisréttið, en enn búum við við að misrétti karla og kvenna í launum er áberandi mikið. Misrétti karla og kvenna varðandi framgang og ráðningar innan fyrirtækja er líka enn þá of mikið og Alþingi hefur meira að segja þurft að setja lög um að karlar og konur skuli vera jafnmörg í stjórnum hlutafélaga, vegna þess að þetta jafnrétti sem ætti að nást með eðlilegum hætti næst ekki.

Ég vil nota þetta tækifæri til að ítreka að við eigum að herðast í baráttunni við að jafna þennan rétt milli karla og kvenna sem hefur enn ekki náðst fram. Við höldum upp á 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna og mér þykir það miður hversu stutt er síðan það er, auðvitað hefðu þær átt að fá kosningarrétt miklu, miklu fyrr. Ég held að verkefni næsta kjörtímabils sé að misrétti karla og kvenna í launum verði algjörlega afmáð. Ég hef verið að stuðla að því að jafnréttisvottun verði tekin upp og ég vona að það verði ákveðið leiðarljós í því að jafna stöðu karla og kvenna, við þurfum að úthugsa margt annað. Eitt af því er að halda upp á 100 ára kosningarrétt íslenskra kvenna þannig að ungar konur viti hversu ótrúlega stutt er síðan þær fengu þau sjálfsögðu mannréttindi sem kosningarrétturinn er.