141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

vörugjald og tollalög.

619. mál
[18:10]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Þegar málið var flutt og ég tók sæti í efnahags- og viðskiptanefnd á þessu þingi voru helstu athugasemdir mínar varðandi breytinguna að sá árangur sem væri stefnt að mundi ekki nást.

Í skýrslu Samtaka atvinnulífsins og líka í þeim skrifum sem hafa komið frá Samtökum verslunar og þjónustu varðandi vörugjöld og tolla hafa menn bent á að í nágrannalöndunum hafa vörugjöld verið notuð til að draga úr neyslu á því sem stjórnvöld hafa talið óæskilegar vörur. Það hefur verið bent á til dæmis áfengi, tóbak og sykur. Ég tek undir að verulegt áhyggjuefni er hvað þjóðin hefur þyngst mikið. Í umsögn landlæknis er bent á að ein leið til að reyna að draga úr því er að draga úr neyslu á sykruðum drykkjum og hafa menn bent sérstaklega á gosdrykki. Eins og kom fram í máli hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar hefur líka komið upp umræða varðandi sykraða ávaxtadrykki. Ég tek undir það markmið að mikilvægt er að draga úr þyngdaraukningu þjóðarinnar.

Það sem ég gerði hins vegar athugasemdir við þegar frumvarpið sem nú er verið að lagfæra var samþykkt, fyrir utan vinnubrögðin við frumvarpið sjálft, var að verið væri að leggja eitthvað til sem mundi ekki ná markmiðum sínum. Það sýndi sig náttúrlega fyrst og fremst í því að menn gerðu ráð fyrir að það skilaði auknum tekjum í ríkissjóð. Ef frumvarpið næði því markmiði sínum að draga úr neyslu á sykruðum afurðum mundi maður telja að það skilaði ekki auknum tekjum í ríkissjóð þar sem drægi úr neyslunni og þar af leiðandi væri minna til skiptanna. Eins og þetta er sett upp virðist ekki vera svo. Maður hefði einmitt talið að ef stjórnvöld væru að einhverju leyti samkvæm sjálfum sér sæjum við breytingar, að menn drægju úr vörugjöldum á ýmsum vörutegundum, sem þeir hafa sjálfir talað fyrir að ættu ekki að vera, og hækkuðu jafnvel enn meira gjaldtöku á þeirri afurð sem þeir teldu ekki æskilega, þ.e. sykurinn. Svo er ekki.

Í umsögn landlæknis varðandi fyrirkomulagið var bent á að þeir væru engan veginn sáttir við það. Það sem er sérstaklega leitt að mínu mati er að þeir fjármunir sem skila sér þarna inn í ríkissjóð eru ekki nýttir í önnur verkefni sem gætu líka tekið á lýðheilsuvandamálinu og gætu þar af leiðandi dregið úr kostnaði í heilbrigðiskerfinu, sem er umtalsverður einmitt út af aukinni þyngd þjóðarinnar og sjúkdómum sem tengjast offitu.

Mín andstaða byggist á því. Stjórnvöld eru að leggja til enn eina leiðina til að skattleggja almenning. Það er verið að gera á máta sem skilar ekki þeim árangri sem er stefnt að, sem er að draga úr neyslu á slíkum vörum. Það er að mínu mati leitt. Ég get svo sem staðið og talað lengi um hvernig er almennt staðið að breytingum á skatt- og gjaldakerfum hins opinbera en hef ákveðið að geyma það til betri tíma.