141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

virðisaukaskattur.

542. mál
[18:57]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir svörin. Ég ætlaði að koma inn á það í þessu síðara andsvari hvort í viðræðum nefndarinnar við forvígismenn gagnavera, eða þau samtök í atvinnulífinu sem hugsanlega hafa látið í ljós álit um þessi efni, hefði komið fram hvort hægt væri að stíga frekari skref til þess að laða starfsemi af þessu tagi til landsins. Eins og hv. þingmaður hefur maður ekki alveg yfirsýn yfir hver umsvifin eru en þó hygg ég að hér hafi verið sett á fót tvö, þrjú gagnaver á síðustu árum og maður bindur auðvitað vonir við að möguleikar í þessum efnum verði nýttir betur í framtíðinni. Ég er að velta fyrir mér hvort í viðræðum nefndarinnar við forvígismenn þess iðnaðar hafi komið í ljós eða verið ræddar hugmyndir um hvernig og að hvað miklu leyti væri hægt að ýta undir frekari starfsemi af þessu tagi.