141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

virðisaukaskattur.

542. mál
[18:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og fram kom í fyrra svari mínu er fyrst og fremst um að ræða þann möguleika að leysa úr þessu sem varðar blönduðu þjónustuna og virðisaukaskatt af henni. Það er ekki alveg einfalt að undanþiggja slíkt til dæmis virðisaukaskatti án þess að það brjóti ríkisstyrkjareglur.

Það sem er flókið við þessa þjónustu er að hún er í hinum rafræna veruleika, í hinum nýja veruleika þar sem verið er að selja vöru yfir landamæri sem fer um ljósleiðara og annan slíkan búnað en er ekki beinlínis afhent. Það sem veldur okkur ákveðnum vandkvæðum í þessu er ekki síst það að við erum ekki hluti af Evrópusambandinu, að minnsta kosti ekki enn þá. Sá virðisaukaskattur sem lagður er á þessa þjónustu hérlendis kemur ekki sjálfkrafa til frádráttar eða sem innskattur hjá þeim aðilum sem kaupa þessa þjónustu á meginlandinu og eru innan Evrópusambandsins. Þess vegna þurfum við með einhverjum hætti að finna tæknilegar leiðir til að þessi iðnaður sé samkeppnishæfur við þann iðnað sem er innan Evrópusambandsins og hann sé ekki krafinn um íþyngjandi skatt, en engu að síður að gera það innan reglna svo við séum ekki dæmd fyrir að mismuna þessari atvinnugrein eða ívilna henni með ólögmætum hætti, til dæmis með því að hún fengi að láta ógert að krefja virðisaukaskatt af húsaleiguþjónustu sem aðrir þyrftu að gera.