141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

virðisaukaskattur.

542. mál
[19:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér nefndarálit frá meiri hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar um breytingu á virðisaukaskatti sem snýr að gagnaverum. Gagnaver eru mjög vænlegur kostur fyrir Ísland og kemur þar margt til. Í fyrsta lagi græn orka, sem er reyndar ekki metin mikið enn þá en mun væntanlega verða metin meira þegar koldíoxíðslosunarheimildir fara að virka, helst um allan heim. Í öðru lagi, sem er merkilegt, þá gerir kuldinn á Íslandi og hvað Ísland er vindasamt það að verkum að miklu auðveldara er að kæla gagnaver á Íslandi en annars staðar og þarf jafnvel ekki mikillar kælingar við. Það gerir þennan iðnað mjög ábatasaman, fyrir utan að margir meta það líka að hér er nokkuð stöðugt stjórnarfar. Í þriðja lagi er Ísland mitt á milli Evrópu og Ameríku og með ljósleiðurum er hægt að flytja gögn í miklum mæli á milli, það er vaxandi ljósleiðaravæðing landsins sem gerir þetta kleift.

Vandinn við þetta er það sem skattyfirvöld allra landa glíma við, sem er óefnislegar eignir og óefnislegar tekjur sem valda sífellt meiri og meiri vandkvæðum, sérstaklega um hvar menn eru að starfa, hvar starfsemin á sér stað, hvað „útlönd“ þýðir, hvað „heimaland“ þýðir og svo framvegis.

Evrópusambandið hefur komið sér upp heilmiklu kerfi í kringum þetta sem gerir það að verkum að virðisaukaskattur á einum stað er frádráttarbær á öðrum stað, þar af leiðandi njóta þeir þess að hafa ekki áhyggjur af virðisaukaskattinum. Það er hins vegar vandamál okkar hér á Íslandi, sérstaklega varðandi gagnaverin, að við þurfum að smíða reglur sem ekki eru flokkaðar sem ríkisstyrkur eins og gert var með það kerfi sem hefur verið og er í gildi núna.

Við sjálfstæðismenn í efnahags- og viðskiptanefnd vorum ekki með á þessu nefndaráliti, en hefðum getað verið það svona að mestu leyti. Það er vonandi að breytingarnar séu nægjanlegar til þess að koma í veg fyrir að þetta verði flokkað sem ríkisstyrkur. Þó er ekki búið að ná utan um alla þættina og því vorum við ekki með á nefndarálitinu. Þetta horfir til bóta og vonandi gengur það upp. Svo á eftir að leysa ýmsa aðra þætti, sérstaklega þar sem er um að ræða blandaða starfsemi þar sem menn eru bæði með innlenda og erlenda viðskiptamenn og selja bæði efnislega og óefnislega þjónustu, bæði afnot af tækjum og tólum og sölu á forritum og hugbúnaði.

Óefnislegar eignir og tekjur eru mjög vaxandi hluti af heimsviðskiptum og mjög spennandi verður að sjá hvernig skattyfirvöld allra landa taka á slíku, til dæmis hvernig sala á hugbúnaði verður skattskyld og skattlögð í virðisaukaskattkerfum og tekjuskattkerfum hinna ýmsu landa.