141. löggjafarþing — 93. fundur,  9. mars 2013.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Mig langar að ræða störf þingsins. Ég fagna því sérstaklega að við erum komin hér saman árdegis á þessum laugardegi til að ræða fjölmörg brýn úrlausnarefni. Dagskráin ber það með sér að það er metnaðarfullt verkefni þingsins að takast á við þau mál sem liggja fyrir. Ég þakka fyrir að við gátum afgreitt áfram nokkur mál í gærkvöldi þrátt fyrir að umræða lengi dags hefði orðið um eitt mál sem, eins og hv. þm. Skúli Helgason vakti máls á, var þó fullkomin samstaða um. Maður getur velt fyrir sér hvort þar sé vel farið með tímann. Sjálfum finnst mér það frekar mikill plagsiður að standa þannig að málum. Mér finnst betra að menn takist á um það sem er raunverulegur pólitískur ágreiningur um og taki tíma í það en standi saman um annað, ekki síst vegna þess að þrátt fyrir allt er það verkefni okkar allra að takast á við viðfangsefni samtímans. Það getur stundum verið freistandi að slá pólitískar keilur eða veita pólitískum andstæðingum skráveifu í hita leiksins, og það gerum við öll af og til, en þegar upp er staðið er það verkefni okkar allra að gera þjóðinni gagn og við megum ekki missa sjónar á því mikilvæga viðfangsefni.

Það er sagt í þessari umræðu að stjórnarskrármálið standi í vegi fyrir því að hér sé hægt að afgreiða mörg mál. Þá er að ræða það og það hefur mikið verið rætt. Framsóknarmenn lögðu sitt inn í þá umræðu í vikunni. Við vorum í mínum flokki ekki öll sátt við það útspil en það var þó útspil og það var efnislegt innlegg í umræðuna. Ég kvarta yfir því að slíkt komi ekki frá Sjálfstæðisflokknum. Enn vitum við ekkert hvað Sjálfstæðisflokkurinn hefur til málanna að leggja (Forseti hringir.) að því er varðar mikilvægt mál eins og náttúruauðlindir í stjórnarskrá. Enn á ný kalla ég eftir því, frú forseti.