141. löggjafarþing — 93. fundur,  9. mars 2013.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil halda mig á svipuðum slóðum og þingflokksformaður Framsóknarflokksins. Mér þykir alveg furðulegt að fylgjast með því hversu værukærir stjórnarliðar eru þegar kemur að þeim fréttum sem hafa birst um hagvöxt ársins 2012. Ég hef ekki heyrt einn einasta stjórnarliða bregðast við þessum fréttum og reyna að gefa skýringar á því hvers vegna það fór svo að hagvöxtur sem Seðlabanki Íslands áætlaði um 3,1% endaði í 1,6%. Þetta eru stóralvarleg tíðindi, virðulegi forseti, og á sama tíma og þetta blasir við streyma inn í þingið frumvörp frá ráðherrum sem munu kosta ríkissjóð milljarða og aftur milljarða í auknum útgjöldum á sama tíma og hagvöxturinn er á leið niður.

Eitt er alveg sérstaklega alvarlegt, virðulegi forseti, og ég gríp niður í frétt Hagstofu Íslands. Þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Aukna fjárfestingu á síðasta ári má að miklu leyti rekja til innfluttra skipa og flugvéla en slík fjárfesting hefur lítil sem engin áhrif á landsframleiðslu ársins. Að frádreginni fjárfestingu í skipum og flugvélum dróst fjárfesting á síðasta ári saman um 4,7% …“

Virðulegi forseti. Fjárfesting dróst saman. Í kjölfar þess að hún hafði hrunið og við áttum að vera að beita öllum okkar kröftum í að búa til umhverfi sem gerði það að verkum að fjárfestingin færi upp af því að það er grundvöllur fyrir hagvexti, grundvöllur fyrir hækkandi launum í landinu, er hún að fara niður.

Hér voru gerðir kjarasamningar. Í þeim var kveðið á um töluvert mikla hækkun launa. Grundvallarforsenda þeirra kjarasamninga var að hér yrði mjög myndarlegur hagvöxtur og því var treyst af hálfu aðila vinnumarkaðarins að ríkisstjórnin stæði við sitt. Vegna þess að (Forseti hringir.) hagspárnar gengu ekki eftir, vegna þess að hagvöxturinn var ekki nægur, vegna þess að verðmætasköpunin var ekki næg, stöndum við frammi fyrir aukinni verðbólgu. (Forseti hringir.) Það er það sem mun fara svo illa með hag heimilanna og það mun fara illa með ríkissjóð.