141. löggjafarþing — 93. fundur,  9. mars 2013.

störf þingsins.

[10:51]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Mig langar að blanda mér aðeins í umræðuna um hið mjög svo athyglisverða innlegg fyrrverandi formanns Samtaka atvinnulífsins og fyrrverandi stjórnarformanns LÍÚ í kveðjuræðu sinni nýlega þegar hann hvatti stjórnvöld og þingið mjög til að ljúka aðildarviðræðunum að Evrópusambandinu og vakti á því athygli að í því lægju hagsmunir atvinnulífsins. Það er mjög brýnt að við metum þjóðarhagsmuni í þessu máli og hverfum ekki af þeirri braut sem Alþingi Íslendinga ákvað sjálft, þ.e. að halda ferlinu áfram og láta síðan þjóðina sjálfa ráða og taka upplýsta ákvörðun í opinni þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

En við þurfum að halda haus í fleiru. Við þurfum líka að halda haus í stjórnarskrármálinu. Þá er ég ekki að tala um stjórnarflokkana, heldur Alþingi Íslendinga sem stofnun. Mér finnst það satt að segja svolítið lýsandi fyrir andann á hinu háa Alþingi að menn skuli kjósa að skilja það sem hótanir þegar þingmenn segja hug sinn í þessu stóra máli. Gagnvart almenningi er annað óásættanlegt en að þingið afgreiði stjórnarskrármálið með ásættanlegum hætti. Kall þjóðarinnar er eftir nýrri stjórnarskrá og jafnvel þó að framsóknarmenn hafi komið með ákveðið útspil fyrir helgi, útspil sem olli verulegum vonbrigðum vegna þess að þeir buðu upp á gamalt auðlindaákvæði frá árinu 2000 eins og engin þróun eða umræða hefði átt sér stað í því máli síðan, er það okkar verkefni hér sem löggjafarsamkomu að ljúka þessu máli. Ég tek undir orð hv. þm. Skúla Helgasonar, við eigum að láta reyna á þetta mál í þinginu. Úr því að enginn vilji virðist vera til þess af hálfu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að taka í útrétta sáttarhönd (Forseti hringir.) er ekki um annað að ræða en að taka því upp þráðinn þar sem frá var horfið, láta reyna á vilja þingsins (Forseti hringir.) og láta hann koma hér í ljós til málsins í heild.