141. löggjafarþing — 93. fundur,  9. mars 2013.

störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það sem hefur einkennt umræðuna mjög mikið á þessu kjörtímabili er hversu oft henni er snúið á hvolf. Við sjáum það gerast til dæmis í þessu máli um aðildarviðræður við Evrópusambandið. Þá er nærtækast að minnast ummæla þingmanna ríkisstjórnarflokkanna, sérstaklega Samfylkingarinnar, um hvað það átti að þýða fyrir okkur bara að leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Við getum minnst allra þeirra fögru fyrirheita sem þá voru gefin um að hér mundi aukast fjárfesting og traust á landinu og allt færast til betri vegar. Hefur þetta gengið eftir? Nei, ekkert af þessu hefur gengið eftir. Það er mjög alvarlegt fyrir Samfylkinguna að hún skuli vera svo blind á þetta mál að það fólk er ekki tilbúið að líta í eigin barm og skoða hvort ekki sé eitthvað sem þyrfti að fara betur yfir og mætti þess vegna breyta afstöðu þess fólks.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur allan tímann lagt til að þetta mál verði lagt í dóm þjóðarinnar. Við erum tilbúin að gera það strax, við treystum þjóðinni til að taka ákvörðun um þetta.

Við sjáum það sama gerast í umræðum um stjórnarskrármálið. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson kvartar yfir því hér að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki komið fram með neitt útspil í þessu máli. Hæstv. forsætisráðherra hefur haldið því fram alveg fram á þennan dag að ekki stæði til að fara með neitt annað hér í gegn en heildarendurskoðun á stjórnarskránni. Það er ekki fyrr en nýr formaður Samfylkingarinnar heggur á hnútinn í þessari viku og gerir þingflokki sínum og samstarfsflokki grein fyrir því að lengra verði ekki farið sem eitthvað gerist. Stjórnarflokkarnir eru búnir að klúðra þessu máli, þeir eru búnir að mála sig út í horn í þessu máli svo lengra verður ekki farið.

Sjálfstæðismenn hafa í allan vetur lagt fram tilboð um að taka fyrir afmarkaða þætti í þessu máli og leggjast yfir vinnu í þeim efnum (Forseti hringir.) til breytinga á stjórnarskránni, þar á meðal á auðlindaákvæðinu. Það þýðir ekki að koma hér á síðustu metrunum (Forseti hringir.) þegar menn eru búnir að mála sig út í horn og vilja fara að bæta úr.