141. löggjafarþing — 93. fundur,  9. mars 2013.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

630. mál
[11:45]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna og þær breytingar sem hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra Katrín Jakobsdóttir hefur lagt fram. Það má segja að þótt einhverjar breytingar hafi verið gerðar á lögunum frá 1992 fram til dagsins í dag hafi verið þarft að taka þau til gagngerrar endurskoðunar. Það eru ýmsar breytingar í þessu frumvarpi frá gildandi lögum og það sem kannski er mest áberandi og er nýmæli er að námsmenn sem ljúka námi sínu á þeim fjölda námsanna og þeim tíma sem skipulag námsins gerir ráð fyrir geta fengið námsstyrk.

Ég tek undir með hv. þm. Lilju Mósesdóttur, kannski er þetta ekki námsstyrkur heldur er verið að fella niður lán í lok námstímans. Það má kalla það styrk en það styrkjakerfi er þá að minnsta kosti ólíkt því sem gerist annars staðar. Þetta er sem sagt styrkur sem er veittur í formi niðurfærslu á tilteknu námsláni. Það getur að sjálfsögðu komið þeim sem tekið hefur lánið til góða eftir námslok.

Það er líka nýmæli að ábyrgð ábyrgðarmanns fellur niður við 67 ára aldur eða við andlát eins og hér stendur. Við erum líka að ræða í þessu frumvarpi að það verður núna lánshæfismatsnefnd sem verður falið að meta lánshæfi náms en ekki stjórn lánasjóðsins eins og verið hefur. Þá næst ákveðin fjarlægð frá stjórn sjóðsins sem ég held að geti verið af hinu góða. Það eru ekki þeir sem sitja í stjórn og úthluta sem jafnframt taka ákvörðun um hvers konar nám er lánshæft.

Ég held líka að heimild til námslána vegna starfsnáms verði framför og hið besta mál.

Það sem vekur pínulitla furðu, og hæstv. ráðherra getur kannski svarað betur í lokaræðu sinni ef hann kemur aftur í ræðu í dag, er að veitt er heimild til handa ráðherra til sérstakra ívilnana til námsmanna í tiltekinni námsgrein. Ég hefði kosið að hæstv. ráðherra færi örlítið nánar út í þessa heimild til handa ráðherra. Ég velti fyrir mér hvort þetta sé tiltekin námsgrein sem íslenskt samfélag kallar einhverra hluta vegna allt í einu sérstaklega á að námsmenn annað tveggja fari í eða ljúki námi fyrr vegna þess að það er þjóðhagslega hagkvæmt að stunda það nám. Það væri fróðlegt að heyra hvernig hæstv. ráðherra sér fyrir sér þessa heimild til sérstakra ívilnana.

Það er æðimargt í frumvarpinu sem ég tel til bóta. Það kallar reyndar á umsagnir jafnt námsmannahreyfinga sem núverandi stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna, sem og kannski háskólasamfélagsins, þ.e. með hvaða hætti það getur komið að málum.

Það er nýmæli í 9. gr. um það sem við köllum námslán og síðan styrki. Við verðum alltaf að hafa í huga að það mun hafa í för með sér aukinn kostnað vegna þess að niðurfærsla námslána í nafni styrkja mun kosta eitthvað einhvers staðar. Hins vegar tek ég undir með hæstv. ráðherra, það að hvetja námsmenn til að ljúka námi sínu á þeim tilskilda tíma sem greinin eða fagið segir til um virkar vel og ef fleiri ljúka námi innan þess ramma sem námið kallar á getur verið þjóðhagslega hagkvæmt að veita styrki á móti. Fólk kemur þá fyrr inn í samfélagið til vinnu, aflar tekna og greiðir skatta af þeim.

Ég tek því undir með hæstv. ráðherra, það þarf að skoða þetta í hinu þjóðhagslega samhengi vegna þess að við þekkjum það að fólk er oft lengur í námi en kannski stendur til, þ.e. við getum sagt að námið kallar á það. Það er hvorki þjóðhagslega hagkvæmt né skilvirkt. Að því leyti ætti 9. gr. í IV. kafla að virkja hvetjandi á ungt fólk eða fólk almennt í námi til að halda þeirri framvindu náms sem námið almennt kallar á.

Um 8. gr. segir í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Líkt og gert er nú skal sjóðstjórn birta lista í úthlutunarreglum sínum yfir þá skóla sem hlotið hafa samþykki lánshæfismatsnefndar.“

Það er spurning um þá þrjá einstaklinga og þrjá til vara sem eiga að sitja í lánshæfismatsnefnd og hvaða hæfi þeir þurfa að uppfylla. Það kann að vera að það standi í frumvarpinu, það hefur þá farið fram hjá mér í hraðlestrinum, og hvað þeir eiga að hafa sem skipa, sækja og sitja. Væntanlega fara þá jafnt embættismenn og fulltrúar háskólasamfélagsins inn í þessa nefnd. Ég held að þessi aðskilnaður stjórnar og lánshæfismatsnefndar sé af hinu góða svo það sé sagt.

Í 12. gr. er fjallað um námsmann sem stundar nám er fellur undir 5. gr. og svo námsstyrkinn en þar stendur „að undanskildu doktorsnámi“. Nú færist það í vöxt að Íslendingar stundi doktorsnám sitt hér heima og við erum með þekkingu á ýmsum sviðum, eins og í umhverfis- og auðlindamálum, í sambandi við orkumál og annað í þeim dúr, og erum kannski framarlega í flokki þannig að ég velti fyrir mér og mig langar að varpa þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðherra hvort einhvers staðar hafi komist til tals vegna þeirra sem stunda doktorsnám hér á landi og vinna til dæmis samhliða hjá einhverjum verkfræðifyrirtækjum, vegna þess að þeir stunda doktorsnám á ákveðnu sviði sem umrætt fyrirtæki vinnur á, að auðvelda fyrirtækjum að taka slíka doktorsnema til sín, þá til dæmis með einhverjum hvetjandi skattaívilnunum. Gæti það orðið til hagsbóta fyrir samfélagið að veita einhvers konar ívilnanir til handa þeim fyrirtækjum sem eru tilbúin að taka á móti slíku fólki í doktorsnámi sínu og svo framvegis til þess að við höldum okkar fólki hér heima til þess að þeir sem vinna í geiranum geti nýtt sér þekkingu og rannsóknir og það nám sem umræddir einstaklingar stunda? Það er svo sem ekki verið að ræða þetta í frumvarpinu en ég varpa þessu hér fram af því að við erum í endurskoðun á þessu kerfi öllu. Er þarna ef til vill kominn enn einn þáttur sem væri þess virði að við skoðuðum hann og hvort það væri þjóðhagslega hagkvæmt fyrir okkur að fólk stundaði nám hér heima og væri á vinnumarkaði þannig að þekkingin nýttist samhliða því sem hún yrði til, ef við getum leyft okkur að orða það svo?

Það er annað sem mig langar að velta hér upp vegna þess að nú stöndum við þannig í íslensku samfélagi að töluverð umræða er um verðtryggingu og framkvæmd verðtryggðra lána á Íslandi. Stenst hún lög, sú framkvæmd sem við höfum viðhaft í gegnum tíðina? Ég velti því fyrir mér af því að það er sérstakur kafli um endurgreiðslu námslána og það er talað um að námslánin skuli verðtryggð og miðist við breytingar á vísitölu neysluverðs, samanber lög nr. 12/1995. Síðan er farið út í það hvernig þetta er hugsanlega reiknað og greitt. Í því árferði sem við erum í og umræðu í sambandi við verðtrygginguna almennt spyr ég: Hefur það komist til tals að hægt sé að veita óverðtryggð námslán og þá hvernig þau skuli sett fram? Ef við ætlum að heimila, eins og verið er að gera á hinum almenna lánamarkaði, lán til fasteignakaupa og annars, verðtryggð versus óverðtryggð lán, velti ég fyrir mér hvort það hafi eitthvað komist við tals við framlagningu og gerð þessa frumvarps hvort það gæti verið skynsamlegt. Ég segi ekki endilega að svo sé, en hefur það verið gert? Ég spyr þá jafnframt hvort það hafi verið rætt eða skoðað. Þá eru væntanlega einhverjir fyrirvarar ef framkvæmd verðtryggðra lána er ólögmæt eins og hún hefur verið sett fram til þessa og ég spyr: Með hvaða hætti þyrfti þá að endurskoða og fara í endurgreiðslu námslána?

Þetta er það sem ég hef verið að pæla í. Ég fagna hins vegar framkomnu frumvarpi ráðherrans. Ég tel ýmislegt þarna verulega áhugavert og sem virkar hvetjandi fyrir námsmenn. Ég held að það sé af hinu góða. Vissulega segir fjárlagaskrifstofan að í þessu felist ákveðinn kostnaður en samkvæmt 12. gr., um endurgreiðslur styrkja eða hvað við köllum það, á eftir að reikna út þjóðhagsleg verðmæti af því að fólk ljúki námi á skemmri tíma og komi fyrr út með þekkingu sína miðað við það sem við höfum í dag.

Að lokum er eitt íhugunarefni sem varðar 21. gr. þar sem talað er um framkvæmdastjóra lánasjóðsins. Í frumvarpinu er þessi grein nýmæli vegna þess að í gildandi lögum eru engin önnur ákvæði í sjálfu sér um skipun framkvæmdastjóra lánasjóðsins en 4. mgr. 4. gr. Ég hef oft velt fyrir mér lagasetningu af þessu tagi sem segir til um hvernig framkvæmdastjóri stofnunar sem þessarar eigi að vinna og hvort þetta sé í samræmi við það sem gerist um forstöðumenn annarra ríkisstofnana, ef við getum sagt svo, því að Lánasjóður íslenskra námsmanna er ekkert annað en ríkisstofnun. Erum við að setja lög þar sem ákvæði um skipan framkvæmdastjóra eru ólík eftir því í hvaða geira þeir vinna. Ef svo er er spurningin til ráðherrans: Af hverju er það svo?

Virðulegur forseti. Þetta frumvarp mun nú ganga til allsherjar- og menntamálanefndar og inn í samfélagið til umsagnar. Það verður bæði fróðlegt og spennandi að sjá með hvaða hætti brugðist verður við þessu ágæta frumvarpi menntamálaráðherra.