141. löggjafarþing — 93. fundur,  9. mars 2013.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

630. mál
[12:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við erum í 1. umr. um frumvarp um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Ég verð eins og fleiri að lýsa því yfir að mér finnst málið allt of seint komið fram ef meiningin er að afgreiða það. Ég get ekki séð að hægt sé að afgreiða málið. Í því eru töluvert miklar breytingar sem eru sumar jákvæðar og margar þarf að skoða — nú kemur hæstv. ráðherra í salinn — og ég geri ekki ráð fyrir því að hæstv. ráðherra reikni með því frumvarpið verði samþykkt á þeim örfáu dögum sem eru eftir af þinginu. Það er fyrsta athugasemdin.

Ég hef margoft sagt að ég tel að tvennt í lífi venjulegs fólks þurfi lánveitinga til og hvort tveggja er fjárfesting. Annars vegar er það íbúðarfjárfesting sem er ofviða hverjum manni að staðgreiða en myndar eign sem endist út lífið og réttlætir þar af leiðandi fjárfestingarlán, sem er lán til íbúðarkaupa og við höfum ákveðið kerfi í sambandi við.

Hins vegar lít ég á menntun sem fjárfestingu. Ég lít á Lánasjóð íslenskra námsmanna sem fjárfestingarlánasjóð, hann lánar fólki til fjárfestingar í menntun sem á að hækka laun fólks, enda sýnir það sig innan OECD, ég sá einhvern tímann könnun um það og vona að ég fari rétt með, að laun háskólamenntaðs fólks voru 50% hærri en laun þeirra sem ekki voru með háskólamenntun. Sú fjárfesting á að borga sig og gerir það mjög sennilega.

Fjárfestingin í menntun er ekki aðeins í hag viðkomandi einstaklings. Það er nefnilega svo merkilegt að menntun hækkar framleiðslustig þjóðfélagsins í heild sinni. Það er talið mjög skynsamlegt að setja peninga þjóðfélagsins í menntun og jafnvel sem úrræði eftir hrun, að setja nógu mikla peninga í menntun til að stuttu seinna fari í gang mikil gróska í þeim störfum sem byggja á menntun. Menntun er því líka fjárfesting sem hefur þjóðhagslegt gildi, jafnvel miklu meira en íbúðabyggingar. Það getur verið mjög skynsamlegt að setja peninga í mannauð. Mikið hefur verið að rætt um auðlindir í umræðunni um stjórnarskrána, sem er því miður reyndar dottin upp fyrir, eða auðlindaákvæðið. Ég hef aldrei vitað almennilega hvað auðlind er, fólk hefur alls konar skoðanir á því. Margir tala einungis um sjávarauðlindina sem auðlind, þ.e. heimildina til að veiða.

Menn tala líka um orkuauðlindina. Þar er líka byggt á mannauði. Sjávarútvegurinn byggir nefnilega á mannauði. Það var ekki fyrr en skipin urðu svo örugg að sjávarútvegurinn hætti að kosta fjölda mannslífa á hverju ári sem hann varð virkilega að auðlind. Sjávarútvegurinn varð ekki að auðlind fyrr en mannauðurinn kom til, þ.e. verkfræðingarnir og tæknifræðingarnir sem byggðu örugg skip og menntaðir sjómenn, sem gerði það að verkum að skipin urðu örugg og menn gátu sótt í öllum veðrum og nánast þurrkað upp auðlindina. Þess vegna þurfti að takmarka aðganginn að henni. Sú auðlind byggir á mannauði og það sama gildir um orkuna. Jökulárnar voru til bölvunar, eins og ég hef margoft nefnt, og orkan varð ekki að auðlind fyrr en mannauðurinn kom til, verkfræðingarnir og tæknifræðingarnir sem byggðu virkjanirnar.

Þetta er sem sagt um menntun sem fjárfestingu og Lánasjóð íslenskra námsmanna sem fjárfestingarlánasjóð. Frumvarpið sjálft er á margan hátt athyglisvert. Þar er til dæmis rætt áfram hver á rétt til náms og það er kannski vandamál nútímasamfélags í alþjóðavæðingu að átta sig á því.

Við eigum í alls konar og miklu flóknari alþjóðasamskiptum en áður. Hingað eru komnir flóttamenn og fólk sem býr hér af mannúðarástæðum. Við erum með fólk sem getur komið frá öllu Evrópusambandinu með frjálsri för fólks og reglur Lánasjóðsins þurfa að taka á þeim samskiptum öllum saman. Það þarf að gæta vel að því að við veitum ekki fólki rétt til námslána á Íslandi sem er kannski ekki í nokkrum einustu tengslum við landið og þá til náms í útlöndum. Ég held að nefndin þurfi að fara mjög vel í gegnum 4. gr. og fá um hana góðar umsagnir þannig að við lendum ekki í neinum vandræðum eins og sumir gera sunnar í álfunni með fólk sem flýr fátækt innan Evrópusambandsins, þ.e. fátæktarflóttamenn gætu hugsanlega fengið námslán á Íslandi til að stunda nám í sínu heimalandi en koma Íslandi ekkert við. Það þarf að athuga mjög vandlega. Þetta er spurningin um hver eigi rétt til náms.

Eitt sem mér hefur alltaf leiðst í sambandi við námslán og finnst eiginlega óþolandi, sérstaklega þegar maður lítur á þau sem þjóðhagslega hagkvæma fjárfestingu, eru ábyrgðarmennirnir, að það skuli ekki duga að sá sem ætlar í nám og stendur keikur frammi fyrir þeirri fjárfestingu heldur þurfi hann að tína til einhverja ábyrgðarmenn. Flestir standa sig bæði í námi og hvað varðar þá fjárfestingu, þeir borga lán sitt til baka og aldrei reynir neitt á ábyrgðarmennina. Þegar reynir á þá er það óskaplega leiðinlegt oft og tíðum vegna þess að viðkomandi námsmaður hefur stungið af, oftast nær til annarra landa þar sem ekki næst til hans, og ábyrgðarmennirnir þurfa, jafnvel eftir skilnað, að bera ábyrgð á viðkomandi manni. Það getur verið allt að því neyðarlegt fyrir utan hvað það er leiðinlegt. Ábyrgðarmenn þurfa að borga lán sem var til framfærslu einhvers annars.

Ég legg til að nefndin skoði mjög vandlega að hætta algjörlega með ábyrgðarmenn. Taki skrefið og segi: Þetta er þjóðhagslega hagkvæmt. Við gerum það fyrir þjóðfélagið. Við ætlum að taka skellinn af því að einn og einn námsmaður stendur sig ekki í námi. Nefndin sem fær það til skoðunar þarf þá náttúrlega að hafa skoðað hversu miklar líkur eru á því að menn standi sig ekki, hvað það hafi gerst oft og hversu oft hefur reynt á slíka ábyrgð.

Lánið er verðtryggt og o.s.frv. og dálítil umræða hefur verið um það. Þannig er að tilskipunin undanskilur neytendalán sem eru ívilnandi. Lánasjóðurinn er með ívilnandi lán, m.a. vegna þess að vextir eru lágir og undir markaðsvöxtum. Reyndar er ekki lengur svo, frú forseti, og það er kannski eitt sem þarf að skoða. Raunvextir á Íslandi eru komnir niður í 2% og þrátt fyrir að sumir segi að vaxtarviðmið lífeyrissjóðanna, 3,5%, hafi einhver áhrif á markaðinn þá hafa þau það ekki. Raunvextir eru mjög líklega, eða sennilega, komnir niður fyrir 2% út af snjóhengjunni. Við erum með lánasjóð sem veitir lán með allt að 3% vöxtum og það eru sennilega orðnir markaðsvextir. Ég held að lánasjóðurinn þurfi að skoða það.

Ég vil endilega að nefndin skoði að hætta með ábyrgðarmennina, algjörlega. Það er líka mjög ábyrgðarlaust þótt það heiti ábyrgð, að fólk skrifi upp á hvert fyrir annað af einhverri algjörri tilviljun og svo mörgum árum seinna spyr það: Skrifaði ég upp á? Þá þarf fólk að borga fyrir einhvern sem ekki stendur sig. Ég held að nefndin ætti að kanna hversu margir standa sig að jafnaði í því að greiða af láninu og hvernig það hefur reynst.

Frú forseti. Ég þarf að gefa í því að ég ætla að ræða um ábyrgðarmenn. Ég ætla að vara menn við því að ábyrgðarmaður falli niður þegar hann nær 67 ára aldri. Það verður mikið fjör hjá þeim sem eru 66 ára því að þeir fara að skrifa upp á í stórum stíl og svo fellur ábyrgðin niður. Ég veit ekki einu sinni hvað gerist með þá sem eru orðnir 67 ára, hvort þeir megi ekki skrifa upp á eða hvernig það er hugsað. Það stendur að ábyrgð skuli falla niður þegar ábyrgðarmaður nær 67 ára aldri eða við andlát hans. Það verður því fjör hjá þeim sem eru á mínum aldri og skrifa upp á í trausti þess að ábyrgðin falli niður innan eins eða tveggja ára og sé jafnvel fallin niður þegar maður skrifar því að sá sem er 68 ára er væntanlega orðinn 67 ára. Ég bið nefndina að skoða það nákvæmlega.

Þá kemur að 12. gr. sem er mjög athyglisverð og er um að breyta hluta af láni í styrk eða 25%. Það er reyndar bent á í umsögn fjármálaráðuneytisins að það kemur mjög mismunandi niður. Maður sem býr í heimahúsum fær kannski helminginn af láninu niðurfelldan en sá sem er í dýru doktorsnámi með stóra fjölskyldu fær jafnvel ekki nema 11% af láni sínu niðurfellt. Ég hefði viljað skoða það mjög vandlega. Þetta er vissulega mjög góður hvati. Ég hefði hugsanlega viljað tengja það ábyrgðinni, að menn sem eru lengur í námi en eðlilegt er þurfi að útvega sér ábyrgðarmenn.

Kostnaðurinn hefur verið nefndur dálítið. Það er rétt að fjármálaráðuneytið reiknar út kostnað sem er ansi mikill, þ.e. fjárlagaskrifstofa fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Hennar umsögn er mjög löng og ítarleg. Þeir giska á að þetta kunni að kosta 3–4,7 milljarða á ári þegar fram í sækir. Ég tel það í sjálfu sér ekki eftir mér fyrir menntun sem er mikilvæg fyrir þjóðfélagið og auk þess getur það haft jákvæð áhrif vegna þess að námið styttist. Það gleymist alltaf í umræðum. Það kostar rúma milljón á ári að mennta einn mann og ef hann er einu ári lengur kostar það milljón meira, það er þannig. Þetta kann því að spara á þeim endanum. Það kann líka að spara að því leytinu að menn fara fyrr út á vinnumarkað, fara að borga skatta fyrr og eru orðnir fullgildir þjóðfélagsþegnar fyrr. Það eru því mörg jákvæð merki sem mér finnst þurfa að skoða og mér finnst fjárlagaskrifstofan ekki fara alveg nægilega vel í. Hins vegar er þetta óneitanlega kostnaður. Ef það væri eini kostnaðurinn sem núverandi hæstv. ríkisstjórn er að skella á framtíðina og á börnin okkar væri það í lagi en við erum hérna með fæðingarorlof sem er líka framhlaðið eða afturhlaðið og það verður gífurlegur kostnaður að leysa fyrir næsta fjármálaráðherra.

Þetta frumvarp kemur líka með gífurlegan kostnað á næsta fjármálaráðherra til að leysa. Alvarlegastar, frú forseti, eru almannatryggingar vegna þess að vitað er að á næstu 15 árum mun nýgengi í almannatryggingum tvöfaldast. 70 ára árgangurinn er núna 1.900 manns. 4.000 manns eru 55 ára. Nýgengi aldraðra tvöfaldast á næstu 15 árum og ég hef hvergi nokkurs staðar sé áætlun um hvernig menn ætla að mæta því, hvorki varðandi almannatryggingar og annað slíkt sem munu vaxa gífurlega, né heldur í heilbrigðisþjónustunni.

Nú er það þannig að þetta leggst ekki á einhvern vaxandi fjölda því að fjöldi í öllum árgöngum, alveg niður í núll ára, eru 4.000–5.000 manns. Allir árgangarnir sem eiga að bera þetta uppi verða mjög stöðugir en kostnaðurinn mun vaxa mjög mikið sem segir okkur að við höfum notið þess undanfarin ár að vera með mjög lítinn kostnað vegna þess hvernig aldursskipting þjóðfélagsins er.

Í heild sinni tel ég málið jákvætt. Ég vara við kostnaðinum af því eins og af öllum málum. Það þarf að taka þau öll saman og menn þurfa að segja mér hvernig þeir ætla að mæta kostnaði sem ekki er gert ráð fyrir, fyrir utan að fjárlögin eru ekki rétt, eins og ég hef margoft bent á. Það er fullt af stórum risagötum í fjárlögunum, þar á meðal Íbúðalánasjóður og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, A-deildin sem átti að standa undir sér. Mér líst ekki á að bæta þessu við.