141. löggjafarþing — 94. fundur,  9. mars 2013.

gjaldeyrismál.

668. mál
[13:35]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis kom saman til fundar hér í þinghúsinu kl. 10 í morgun og sammæltist um að flytja það frumvarp til laga sem hefur verið dreift meðal þingmanna og lýtur að gjaldeyrishöftum. Undanfarna mánuði hafa átt sér stað viðræður á milli stjórnmálaflokkanna, forustu þeirra, fjármála- og efnahagsráðuneytisins, atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins og Seðlabanka Íslands um nauðsynlegar breytingar á lögum um gjaldeyrishöft, m.a. í tengslum við þá erfiðu stöðu sem Ísland er í í þeim efnum, þau risavöxnu þrotabú hinna föllnu banka sem eru enn í okkar efnahag og þau úrlausnarefni sem sú staða öll kallar á. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir að fjölmenna svo til þingfundar að taka megi málið með afbrigðum á dagskrá og gera að lögum hér í dag. Sú er ætlunin.

Frumvarpið felur annars vegar í sér að gjaldeyrishöft verða ótímabundin og það þar með alveg skýrt að þeim verður ekki létt fyrr en lausn er fengin fyrir Ísland. Hins vegar birtir það þverpólitíska samstöðu á Alþingi um það með hvaða hætti skuli standa að þeim mikilvægu ákvörðunum í efnahagsmálum sem fram undan eru. (Gripið fram í: Já.) Samstaða okkar er lykillinn að farsæld og árangri í úrlausnarefnum.

Hinn 12. mars síðastliðinn, árið 2012, flutti meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar frumvarp til laga um breytingu á gjaldeyrishöftum sem tók inn undir höftin þrotabú hinna föllnu banka sem ekki höfðu fallið undir þau með hinum upphaflegu lögum um gjaldeyrishöft. Það var gert vegna þess að það er gríðarlega mikilvægt að vinna skipulega úr þessum stóru eignasöfnum, þó að þetta séu þrotabú eru þetta þrotabú gríðarlega stórra alþjóðlegra banka og þau eru risavaxin í okkar litla efnahag. Það skiptir sköpum um erlenda stöðu þjóðarbúsins og efnahagsþróun hér til frambúðar að úr þessari stöðu verði unnið vel og skipulega.

Með þeirri lagasetningu tókst það og nú er tekið annað skref með því að búinn er nokkuð annar rammi um það hvernig eigi að standa að veitingu undanþágu frá gjaldeyrishöftum. Þar er gert ráð fyrir því að Seðlabanki Íslands beri stærri undanþágur sem varða efnahagsreikninga yfir 400 milljörðum og einstaka hreyfingar yfir 25 milljörðum og hafi samráð um þær ákvarðanir við annars vegar ráðherra fjármála og hins vegar þann ráðherra sem fer með bankamál, enda geta þær ákvarðanir haft mikil áhrif á fjármálamarkaðinn á Íslandi, svo stórar sem þær eru. Ráðherrarnir kynna þau málefni fyrir efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis og tryggja þar með (Forseti hringir.) að allir stjórnmálaflokkar hér séu upplýstir um þær þegar þær eru teknar.

Virðulegur forseti. Nefndin mun taka málið til umfjöllunar á milli 1. og 2. umr.