141. löggjafarþing — 94. fundur,  9. mars 2013.

gjaldeyrismál.

668. mál
[13:45]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum stærsta einstaka hagsmunamál þjóðarinnar, hvernig við ætlum að leggja línurnar varðandi uppgjör búa hinna föllnu banka. Með því að sameinast hér, allur þingheimur, erum við að senda skýr skilaboð um að við erum tilbúin að ganga alla leið til að verja hagsmuni íslensku þjóðarinnar.

Ég vil fá að nota tækifærið, virðulegi forseti, og lesa ályktun flokksþings framsóknarmanna um afnám fjármagnshafta:

„Afnám fjármagnshafta er mikilvægt til að ná fram heilbrigði í efnahagsmálum og innleiða markaðsskráningu íslensku krónunnar. Heildstæð áætlun um afnám fjármagnshafta er nauðsynleg í ljósi þess að vandinn er mun stærri en áætlað hefur verið. Lausnir varðandi skuldaskil gömlu bankanna, „snjóhengjuna“ og ýmis önnur atriði þurfa að vera hluti af slíkri áætlun. Tryggja þarf að þrotabú gömlu bankanna fái ekki heimildir til gjaldeyrisútflæðis fyrr en heildstæð áætlun um losun hafta liggur fyrir. Slík áætlun þarf að taka tillit til þess að kröfuhafar gömlu bankanna hafa hagnast mjög á sínum viðskiptum og eðlilegt er að þeim ávinningi sé skipt á milli þjóðarinnar og kröfuhafa. Við afnám hafta er brýnt að traust umgjörð sé um gjaldeyrismarkaðinn til framtíðar og að fyrir liggi trúverðug peningastefna. Þá er mikilvægt að koma í veg fyrir að hugsanleg skammtímaveiking íslensku krónunnar í kjölfar haftaafnáms leiði til sjálfvirkrar hækkunar lána í landinu og þar með skuldaaukningar heimila og fyrirtækja.“

Ég vil líka fá að nota tækifærið og vísa til óundirbúinnar fyrirspurnar sem ég bar upp til hæstv. forsætisráðherra í gær um uppgjör búa hinna föllnu banka. Þar sagði hæstv. forsætisráðherra að ekkert lægi á í þessu efni.

Við þurfum fyrst og fremst að gæta að hagsmunum íslensku þjóðarinnar og í þessu stærsta einstaka hagsmunamáli þjóðarinnar tel ég að þeir ráðherrar sem munu undirrita þessar reglur verði að hafa sótt endurnýjað umboð til þjóðarinnar áður en við tökum frekari skref.