141. löggjafarþing — 95. fundur,  9. mars 2013.

gjaldeyrismál.

668. mál
[14:08]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Eins og kom fram við kynningu frumvarpsins hefur þegar verið haft samráð um lokagerð þess, bæði við Seðlabanka Íslands og fjármála- og efnahagsráðuneytið, og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur haft allnokkra aðkomu að málinu.

Á fundi í því hléi sem gert var gafst fulltrúum úr slitastjórnum hinna föllnu banka, þeirra þriggja stóru, Glitnis, Kaupþings og Landsbankans, færi á að kynna sér frumvarpið stuttlega. Með fyrirvara um þann skamma tíma sem var til þeirrar kynningar komu ekki fram sérstakar efnislegar athugasemdir við málið. Rétt er að geta þess að rætt var hvort þingnefndin sem upplýst verður um hin efnahagslegu áhrif væri með einhverjum hætti hluti af stjórnvaldsákvörðuninni. Það var áréttað að svo er ekki. Aðeins fer fram kynning fyrir nefndinni og afstaða nefndarinnar eða einstakra nefndarmanna varðar engu um stjórnvaldsákvörðunina. Einfaldlega er verið að sækjast eftir því að þjóðþingið sé upplýst um hin efnahagslegu áhrif fyrir þjóðarbúið því að þetta eru stórar ákvarðanir sem varða þjóðarbúið miklu.

Ekki er skriflegt nefndarálit frá nefndinni milli umræðna enda engin þörf á því þar sem hún gerði engar breytingartillögur. Hún mælir öll með því að frumvarpið verði samþykkt óbreytt að lokinni 2. umr. sem og 3. umr., enda óþarft að málið gangi til nefndar á milli 2. og 3. umr., svo víðtækt samráð sem hefur verið haft um gerð þess.

Ég þakka nefndarmönnum í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, fjármálaráðuneytinu og fjármálaráðherra og Seðlabankanum fyrir gott samstarf við vinnslu málsins.