141. löggjafarþing — 96. fundur,  9. mars 2013.

gjaldeyrismál.

668. mál
[14:15]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeirri samstöðu sem hefur tekist á þingi um nauðsynlegar forsendur þess að við getum varið efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar og tekið réttar ákvarðanir þegar almannahagur er í húfi á næstu missirum og árum.

Hitt verður hins vegar að vera íslenskri þjóð áhyggjuefni, að þverpólitísk samstaða hafi myndast á Alþingi Íslendinga um ótímabundin höft. Ekkert sýnir betur mikilvægi þess að marka skýra stefnu um framtíðargjaldmiðil þjóðarinnar, um það hvernig við brjótumst út úr efnahagslegri einangrun og gerum Ísland að boðlegu landi fyrir frjálshuga fólk næstu áratugi og aldir.