141. löggjafarþing — 96. fundur,  9. mars 2013.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

630. mál
[14:19]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Eins og ég kom að í andsvari mínu við hæstv. menntamálaráðherra við upphaf umræðunnar er margt í sambandi við þetta frumvarp sem ástæða er til að skoða með jákvæðum huga. Ég held að það sé jákvætt að frumvarpið er komið fram og mikilvægt að það fari nú til meðferðar hjá þingnefnd og hjá aðilum sem um það geta fjallað, hagsmunaaðilum og eins sérfróðum aðilum sem hugsanlega geta aðstoðað okkur við að átta okkur á afleiðingum þess, fjármögnun og öðrum þáttum, sem enn eru nokkuð umdeildir. Við höfum að minnsta kosti í höndunum mismunandi sjónarmið. Það er í sjálfu sér ágætt að það gerðist fyrir þinglok þó að það hve seint málið kemur inn í þingið geri að verkum að maður verður fyrir fram að lýsa því raunsæislega mati að kannski sé ólíklegt að okkur takist að klára það fyrir þinglok.

Í því sambandi ber auðvitað að athuga að gildistími frumvarpsins er ákveðinn fram í tímann. Það er ekki gert ráð fyrir að það taki gildi fyrr en 1. september 2014 þannig að hvort sem er er ekki um að ræða beina tímapressu í því sambandi þó að auðvitað sé gott að þoka málinu áleiðis og fá botn í það eins fljótt og kostur er. Tímapressan á þessu máli er hins vegar ekki meiri en svo að gildistakan er ekki ákveðin fyrr en eftir 15 mánuði þannig að þótt ekki takist að ljúka þessu á þeim fáu dögum sem eftir eru af þessu þingi er ekki hundrað í hættunni, ef svo má að orði komast.

Ég nefndi það að tilefni þessarar lagasetningar væri vissulega fyrir hendi. Þarna er um að ræða endurskoðun á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna sem að stofni til eru frá 1992. Í greinargerð með frumvarpinu er vísað til þess að margt í umhverfi námslánakerfisins, í menntakerfinu, hafi breyst á þeim tíma, ekki síst á vettvangi háskólastarfs í landinu. Það sem blasir við í því sambandi er bæði fjölgun háskólanna og sú mikla fjölgun stúdenta á háskólastigi sem átt hefur sér stað á þessum tíma. Sá fjöldi sem stundar háskólanám í landinu hefur margfaldast á ekki lengri tíma þannig að það eitt og sér breytir töluvert umhverfinu að þessu leyti. Það eru miklu fleiri sem í dag sækja í lánshæft nám en var þegar núgildandi lög um lánasjóðinn voru sett. Það kallar á skoðun á kerfinu.

Það er líka vísað til þess að Ríkisendurskoðun hefur gert athugasemdir við núgildandi fyrirkomulag. Það er atriði sem meðal annars hefur komið til umræðu á vettvangi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á síðustu mánuðum. Í fljótu bragði virðist frumvarpshöfundum takast að koma til móts við athugasemdir sem rekja má til athugasemda Ríkisendurskoðunar, þó að hugleiðingar Ríkisendurskoðunar um framtíðarfyrirkomulag námslánakerfisins speglist ekki endilega í þessu frumvarpi. Ríkisendurskoðun lét í ljósi ákveðin sjónarmið eða viðhorf í skýrslum sínum sem nálgast frekar pólitíska stefnumörkun en stjórnsýsluúttekt eða annað þess háttar sem undir þá stofnun heyrir. En það er önnur saga.

Síðan þekkjum við þingmenn það auðvitað að hagsmunaaðilar, ekki síst úr hópi námsmanna, hafa ítrekað gert athugasemdir við fyrirkomulagið. Það er með sínum hætti reynt að koma til móts við það. Það sem fyrst og fremst vekur spurningar í mínum huga á þessum tímapunkti og hæstv. ráðherra hefur þegar komið inn á, bæði í ræðu sinni og í andsvörum, varðar mismunandi mat á fjármagnsþörf kerfisins verði þessar breytingar að veruleika. Eins og fjallað hefur verið um í þessari umræðu er verulegur munur á mati annars vegar fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins og hins vegar menntamálaráðuneytisins og þeirra sem hafa unnið að þessu í samstarfi við það ráðuneyti. Eins og fram hefur komið hlýtur það atriði að verða skoðað vel í nefndinni. Ráðherra hefur boðað að minnisblað um það efni verði sent nefndinni.

Í umræðunni hefur líka komið fram að ráðherra hyggst leita til Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um að meta þessa þætti ásamt og með þjóðhagslegum áhrifum sem er gríðarlega mikilvægt vegna þess að þarna er um að ræða kerfi sem hægt er að líta á bæði sem útgjaldaþátt og fjárfestingu fyrir samfélagið sem slíkt. Kostnaður fylgir námslánakerfi, ég tala nú ekki um ef styrkjaþátturinn í því verður aukinn eins og hér er gert ráð fyrir því að þá eru það auðvitað útgjöld. Að sama skapi er að sjálfsögðu um að ræða fjárfestingu í menntun sem ætla má að skili sér til samfélagsins, auk þess sem það blasir við að ef frumvarpið nær því markmiði að hvetja fleiri til þess að ljúka lánshæfu námi á tilsettum tíma er þetta til þess fallið að draga úr kostnaði. Það má segja að þarna séu bæði kostnaðaraukandi þættir en líka þættir sem geta horft til sparnaðar. Það er mikilvægt að fá mat í þessu sambandi.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu, hæstv. forseti, á þessu stigi. Hér er um 1. umr. að ræða og málið fer nú til umfjöllunar í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og fær þar skoðun. Það ber að fagna þessu máli, það ber að fagna tillögum í frumvarpinu og vonandi næst við málsmeðferð í þinginu meiri samhljómur í mati manna á því hvaða kostnaður muni fylgja málinu. Vonandi verður unnt að leiða þetta mál til lykta.

Eins og ég segi er ekki raunhæft að ætla að málið klárist fyrir föstudag í næstu viku, en þá á þinginu að ljúka miðað við starfsáætlun. Þótt það gerist ekki er engum sérstökum hagsmunum fórnað, enda er gildistakan hvort sem er sett á 1. september 2014.