141. löggjafarþing — 96. fundur,  9. mars 2013.

endurbætur björgunarskipa.

471. mál
[14:54]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hérna við síðari umræðu tillögu til þingsályktunar um endurbætur björgunarskipa þar sem Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að gera samkomulag við Slysavarnafélagið Landsbjörg um endurbætur og viðhald björgunarskipa á árunum 2014–2021. Einnig ályktar Alþingi að fela innanríkisráðherra að kanna þörf og möguleika á því að fá enn öflugri björgunarskip á tiltekna staði á landinu.

Saga reksturs björgunarskipa er löng hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, allt frá árinu 1930. Fyrsta björgunarskipið kom til landsins mjög fljótlega eftir stofnun Slysavarnafélags Íslands árið 1929. Það skip er enn til, er í mjög heillegu standi og er í geymslu suður í Sandgerði. Það var smíðað árið 1909 og fékkst frá Konunglega breska sjóbjörgunarfélaginu þannig að það má segja að saga félagsins í þessum rekstri sé orðin löng og gæfurík. Það var síðan árið 1956 sem Gísli J. Johnsen, björgunarskip sem margir þekktu, kom til landsins og var lengi í Reykjavíkurhöfn, í davíðum eins og það heitir, hékk þar utan á gamla Slysavarnafélagshúsinu og átti langan og farsælan feril. Síðan var farið að hyggja að frekari útvíkkun á þessum rekstri í lok síðustu aldar, getum við sagt. Þá voru keypt skip, fyrst og fremst frá systursamtökum Slysavarnafélagsins, sjóbjörgunarsamtökum í Þýskalandi og Hollandi ásamt einhverju frá Bretlandi.

Það var síðan fljótlega eftir að Slysavarnafélag Íslands og Landsbjörg voru sameinuð árið 1999 sem farið var í það verkefni að loka hringnum. Fyrir höfðu verið níu skip á landinu. Þau voru í Reykjavík, á Rifi, Ísafirði, Siglufirði, Raufarhöfn, Neskaupstað, Vestmannaeyjum, Grindavík og Sandgerði. Í þessu verkefni, sem kallað var að loka hringnum og fór af stað af fullri alvöru eftir 2005, komu inn skip á Patreksfirði, Skagaströnd, Vopnafirði, Höfn og Hafnarfirði. Þar með voru skipin orðin 14 og má segja að þau þjóni mjög vel þessu nærsvæði á íslensku hafsvæði.

Þegar farið var í þessa endurnýjun og breytingar var ákveðið að ganga til samstarfs við Konunglega breska sjóbjörgunarfélagið sem á þeim tíma var að skipta út svokölluðum ARUN Class björgunarskipum sínum. Félagið gat fengið þau á mjög góðu verði. Skipin komu hérna á verði, ágætt að nefna það, sem var á þeim tíma 12–15 milljónir fyrir fullbúin skip á sama tíma og nýsmíði hvers skips á þeim tíma hefði verið nálægt 300 milljónum. Þessi skip voru auðvitað komin eitthvað til ára sinna og voru í misjöfnu ástandi. Notkun þeirra og reynsla hér er mjög góð. Eins og komið hefur fram fara þessi skip í um það bil 80 útköll á ári fyrir utan öll önnur verkefni. Þarna er um að ræða útköll þar sem hætta er á ferðum.

Gerður hefur verið samstarfssamningur við Landhelgisgæsluna vegna notkunar þessara skipa. Það má segja að þetta spili mjög vel saman í þessum öryggisþætti við rekstur Landhelgisgæslunnar á stærri varðskipum þar sem þessi skip geta sinnt björgun og þess vegna að hluta til eftirliti á nærsvæðinu hvert á sínum stað.

Það hefur verið gerð úttekt á þörf til að stækka eitthvað af þessum skipum. Það er nokkuð sem við leggjum til að ráðuneytinu verði falið að skoða betur. Margt styður það að á ákveðnum hafsvæðum, t.d. út af Vestfjörðum og Reykjanesi og jafnvel á Austfjörðum, geti verið nauðsynlegt að hafa heldur öflugri skip en þar eru fyrir hendi í dag. Það er kannski meiri framtíðarmúsík, en sjálfsagt að skoða alla möguleika í þeim efnum.

Rekstur þessara skipa er Slysavarnafélaginu dýr. Þó að áhafnir og allir sem að þessu koma vinni í sjálfboðavinnu eru þetta öflug skip með tveimur stórum vélum og þurfa að fá mjög reglubundið viðhald. Það er komið að því núna að fara í skipulagt endurnýjunarprógramm á tækjabúnaði þessara skipa. Skrokkarnir eru í mjög góðu ástandi og hafa, eins og fram hefur komið, reynst mjög vel við íslenskar aðstæður. Talið er að þeir geti átt langan líftíma, en það er orðið tímabært að skipta um vélar í sumum þessara skipa og rafkerfi. Eitt og annað þarf að gera og félaginu er ofviða að fara í slíkt verkefni án aðkomu ríkisins.

Það þarf ekki að hafa um það mörg orð í sjálfu sér, virðulegi forseti, hversu hagkvæmt það er fyrir ríkissjóð og þjóðina að sjálfboðaliðasamtök skuli standa eins myndarlega að þessum rekstri og raun ber vitni. Við getum rétt ímyndað okkur hvað það mundi kosta ríkissjóð ef þetta ætti allt að vera rekið á opinberum vettvangi. Það framlag sem við leggjum til að verði komið til félagsins á næstu árum er talið munu gera því kleift að fara í algjöra endurnýjun á tækjabúnaði þessara skipa og lengja þannig líftíma þeirra, lækka rekstrarkostnað og gera þau reyndar enn öflugri og hraðskreiðari en þau eru í dag.

Staðan er erfið. Við getum tekið sem dæmi að á Patreksfirði er skip sem er varla útkallshæft og það sama á við um skipið á Rifi. Nýlega er búið að eyða þó nokkrum fjárhæðum í að fara í viðgerðir á skipinu í Sandgerði. Við það verður ekki búið, virðulegi forseti, vegna þess að þessi skip eru mjög mikilvægur hlekkur í öryggiskeðju okkar á hafsvæðinu í kringum Ísland gagnvart íslenskum sjómönnum og almennt gagnvart þeim sem eru á ferð um hafsvæði á þessum tíma. Þau uppfylla líka ákveðið þjónustuhlutverk sem nauðsynlegt er á þessum hafsvæðum.

Ég er mjög þakklátur fyrir að þingið skuli hafa tekið vel í þessa málaleitan. Við erum fjórir flutningsmenn frá fjórum flokkum sem flytjum þetta mál. Þau eiga auðvitað að vera þverpólitísk, þau eru ekki háð flokkapólitík. Um málefni Slysavarnafélagsins Landsbjargar hefur alltaf ríkt góð eining og samstaða á Alþingi. Ég vona að það verði áfram þannig.

Ég er þakklátur allsherjar- og menntamálanefnd fyrir góða vinnu í þessu máli. Hún kallaði til sín umsagnaraðila. Umsagnir gagnvart þessu verkefni voru almennt mjög jákvæðar og nefndin afgreiddi þetta fljótt og vel og í mikilli samstöðu.

Það er von mín að þetta megi verða til þess að við sjáum þetta starf blómstra og verða rekið af enn meiri krafti í framtíðinni. Það er markmiðið með þessu og það er okkur öllum nauðsynlegt. Hér sýnir Alþingi velvilja sinn í verki og stuðning við þetta mikilvæga verkefni.