141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[10:32]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr):

Forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar. Flutningsmaður að tillögunni er sá er hér stendur. Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að lýsa vantrausti á ríkisstjórnina.

Alþingi lýsir þeim vilja sínum að þing verði rofið og efnt til almennra þingkosninga. Fram að kjördegi sitji ríkisstjórn skipuð fulltrúum allra flokka á þingi.“

Í greinargerð með tillögunni segir eftirfarandi:

Sú vantrauststillaga sem hér er lögð fram beinist gegn ríkisstjórninni þar sem hún situr í umboði meiri hluta þingsins, en þingið getur ekki afgreitt frumvarp til stjórnarskipunarlaga byggt á þeim drögum sem samþykkt var að leggja til grundvallar nýrri stjórnarskrá og samþykkt voru með yfirgnæfandi meiri hluta í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012.

Lýðræðisumbætur sem lofað var í aðdraganda kosninga hafa ekki séð dagsins ljós og enn er við lýði ójafn kosningarréttur eftir landshlutum, ójafnrétti í fjármálum stjórnmálaflokka og skortur á persónukjöri og beinu lýðræði.

Með hliðsjón af því grundvallaratriði í lýðræðisríkjum að allt vald komi frá þjóðinni virðist ríkisstjórnin ganga í berhögg við augljósan vilja þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá. Slíkri ríkisstjórn er eðli málsins samkvæmt ekki stætt að vera við völd og ber því að fara frá. Lagt er til að fram að kjördegi sitji ríkisstjórn skipuð fulltrúum allra flokka á þingi í stað þess að fráfarandi stjórn sitji sem starfsstjórn fram að þeim tíma. Með því eru meiri líkur á að sátt náist um mál sem varða hagsmuni þjóðarinnar.

Forseti. Þjóðaratkvæðagreiðsla fór fram 20. október þar sem samþykkt var með yfirgnæfandi meiri hluta hvernig ný stjórnarskrá fyrir þjóðina ætti að líta út. Þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu og niðurstöðu hennar hefur nú verið hent í ruslið af formönnum Samfylkingar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni, fulltrúa Bjartrar framtíðar. Þetta er einstakur gjörningur í sögu lýðræðisríkja að þjóðaratkvæðagreiðslur séu vanvirtar með þessum hætti.

Forseti. Á sínum tíma í janúar 2009 var búsáhaldabylting. Þar kom fram skýr krafa um nýtt Ísland. Stofnaðir voru flokkar, meira að segja sumir í stjórnarmeirihlutanum stofnuðu flokk sem hét Nýtt Ísland.

Í kjölfarið á kosningunum 2009 kom fram skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis. Hún lýsti mjög vel hvað var að, hvað hafði gerst og hvers vegna hrunið átti sér stað. Í kjölfarið á þeirri skýrslu ályktaði Alþingi sjálft, 63:0, að farið skyldi í vinnu við að skrifa nýja stjórnarskrá. Hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, lagði fram frumvarp um kosningu til stjórnlagaþings. Allsherjarnefnd Alþingis tók málið til meðferðar og allsherjarnefnd Alþingis var fullkomlega sammála um ferlið sem ætti að fara í. Það skyldi tilnefnd sjö manna stjórnlaganefnd sem ætti að hafa umsjón með fyrstu stigum verksins. Stjórnlaganefndin skyldi kalla saman þjóðfund þúsund Íslendinga sem voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Stjórnlaganefndin undir forustu Guðrúnar Pétursdóttur safnaði saman gríðarlegu magni upplýsinga um fyrri stjórnarskrárvinnu sem hefur átt sér stað hér á landi og vann úr þeim tillögum. Þjóðfundurinn var haldinn með glæsibrag í Laugardalshöllinni. Þar komu fram tillögur. Úr þeim öllum var unnið og skýrsla stjórnlaganefndarinnar kom út í tveimur bindum með hugmyndum að tveimur nýjum stjórnarskrám.

Í kjölfarið var kosið til stjórnlagaþings. Í þeim kosningum voru í framboði yfir 500 frambjóðendur. Ekki er hægt að segja annað en þjóðin hafi haft mikinn áhuga á því máli. Í þeim kosningum kusu hvorki fleiri né færri en 84 þúsund manns persónukjöri í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins. Sjálfur fór ég á kjörstað þennan dag og í fyrsta sinn í öll þau skipti sem ég hef farið á kjörstað fannst mér ég hafa úr of mörgum góðum frambjóðendum og framboðum að velja. Það var frábær tilfinning að fara á kjörstað og eiga í vandræðum með að velja fólk á lista vegna þess að það voru of margir svo góðir, öfugt við það sem Íslendingar hafa búið við í nærri 70 ár, fjórflokkinn sem raðar sjálfum sér þar sem honum hentar. (Gripið fram í.) Þetta var skref í þá átt að lýðræðisvæða Ísland enn frekar.

Síðar kom úrskurður Hæstaréttar, sem var einsdæmi. Það er eitt að gagnrýna framkvæmd kosninga en það er einsdæmi á Vesturlöndum að hæstiréttur þjóðar ógildi kosningu þegar ekki er hægt að sýna fram á að vanhöld á kosningunni hafi haft nokkur áhrif á útkomuna. Sá úrskurður var pólitískur og enn fremur staðfesting á því sem segir í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og sem þjóð veit að pólitískar tilnefningar hæstaréttardómara hafa tilgang. Þær hafa þann tilgang að tryggja valdastétt landsins völd áfram og þarna kom það í ljós. Í framhaldinu tók þingið við sér með glæsibrag og skipaði þá sem kjörnir voru á stjórnlagaþing í stjórnlagaráð til að klára verkið.

Stjórnlagaráð vann mjög góða vinnu en hafði lítinn tíma vegna þess að Alþingi treysti sér ekki til að finna annað húsnæði undir vinnu stjórnlagaráðs og starfslok þess tóku mið af húsaleigusamningi sem það hafði gert við Kvikmyndaskóla Íslands, sem síðar varð frægur með endemum í þingsölum líka. Stjórnlagaráð vann hins vegar í eindrægni, safnaði upplýsingum, aðkoma þjóðarinnar að allri vinnu stjórnlagaráðs var glæsileg. Fulltrúar þess báðu um aðstoð úr fræðasamfélaginu, því fræðasamfélagi sem síðar gagnrýndi svo mjög vinnu þeirra en treysti sér á sínum tíma ekki til að taka mikinn þátt í vinnu stjórnlagaráðs.

Stjórnlagaráð skilaði af sér frumvarpi, drögum að nýrri stjórnarskrá, sem var afhent í júlí 2011. Síðan þá hefur málið verið í meðferð Alþingis. Unnið hefur verið af mikilli eindrægni og miklum dugnaði af stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og formanni hennar, Valgerði Bjarnadóttur, og á sá hv. þingmaður mikið hrós skilið fyrir hvernig haldið hefur verið á málinu. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vann með málið þann vetur, óskaði eftir því að stjórnlagaráð kæmi saman aftur til að fara yfir málið vegna ýmissa ákvæða sem talin var þörf á að laga. Síðan kom málið aftur til meðferðar á þingi og var þar í ítarlegri meðferð alla tíma síðan. Leitað var til svokallaðrar Feneyjanefndar, sem er nefnd Evrópuráðsins um stjórnarskrár, um álit hennar á ákveðnum hlutum frumvarpsins. Þegar álit Feneyjanefndarinnar lá fyrir var farið í að vinna framhaldsnefndarálit sem liggur nú fyrir þinginu.

Þetta hefur verið einstök aðferðafræði við vinnu stjórnarskrár. Hún hefur vakið heimsathygli og á sér enga hliðstæðu í sögu lýðræðisríkja í heiminum. Þetta er aðferðafræði sem Íslendingar allir eiga að vera stoltir af og það er dapurlegt að hafa þurft að vera vitni að því undanfarin fjögur ár hvernig tveir flokkar á þingi hafa talað þetta mál niður, virkilega dapurlegt.

En það er ekki nóg með að þeir hafi talað málið niður. Nú hefur sá gjörningur hv. þingmanna Árna Páls Árnasonar, Katrínar Jakobsdóttur og Guðmundar Steingrímssonar gert það að verkum að þingflokkar þeirra hafa gengið í lið með úrtölumönnum í Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki og ákveðið að stjórnarskráin skuli fyrir bí, henni skuli hent út af borðinu. Með því er verið að taka afstöðu til þjóðaratkvæðagreiðslna í heild sinni sem fyrirbæris í framtíðinni líka. Verið er að ganga gegn vilja þjóðarinnar, verið er að ganga gegn skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, verið er að setja hana í tætarann, hún þvælist þá ekki fyrir stjórnarmeirihlutanum lengur en fjögur ár. Verið er að ganga gegn vinnu stjórnlaganefndar, gegn vinnu allsherjarnefndar og gegn vinnu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Það er þetta sem gjörningur þessara þriggja þingmanna er að gera málinu og það er þetta sem stuðningur þingmanna þeirra flokka sem að baki þeim standa er að gera málinu. Það er enginn saklaus í þessu máli sem hefur stutt það að málið yrði tekið af dagskrá.

Sérkennilegt hefur verið að ræða við forustumenn þessara flokka undanfarnar vikur út af málinu. Það hefur komið í ljós að þeir hafa ekki kynnt sér það, þeir hafa ekki kynnt sér framhaldsnefndarálitið, þeir hafa ekki kynnt sér hvernig búið er að koma til móts við breytingartillögurnar. Formaður Samfylkingarinnar lýsti því yfir á fundi Samfylkingarinnar að hann hefði ekki kynnt sér plaggið. Í viðræðum við formann Bjartrar framtíðar kom í ljós að hann hafði yfir höfuð ekki hugmynd um hvað búið var að gera í málinu, enda hafði fulltrúi Bjartrar framtíðar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ekki mætt sérstaklega mikið á fundi og hefur ekkert mætt á fundi í nefndinni eftir að hin nýja tillaga þeirra kom þangað inn til að fylgjast með málinu þar. (Gripið fram í: Hann var erlendis.) Erlendis, segir einhver. Og hvað með það? Er það meira áríðandi en ný stjórnarskrá, spyr ég bara. Svar mitt við því er nei.

Í ljós hefur komið að svokölluð Björt framtíð hefur grafið undan málinu lengi, vikum og mánuðum saman. Ábyrgð þeirra er ekki lítil. Þeir hafa talað fyrir því með annarri tungunni en talað gegn því með hinni, það heitir að tala tungum tveim. Þetta eru ekki þau nýju stjórnmál sem Íslendingar hafa verið að lýsa eftir og það eru ekki þau nýju stjórnmál sem þeir þykjast vera boðberar fyrir. Þetta eru gömlu, góðu, spilltu ógeðsstjórnmálin sem Ísland er búið að fá nóg af.

Frú forseti. Það er ástæða fyrir því að leggja þarf fram vantrauststillögu á svona ríkisstjórn en það er dapurlegt að standa frammi fyrir því að stærstur hluti þingheims ætlar að ganga gegn vilja þjóðarinnar. Það var í boði á miðvikudag í síðustu viku að ganga til dagskrár um að klára 2. umr. um stjórnarskrána. Því var hafnað af formönnum Samfylkingar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar. Ákveðið var að taka málið af dagskrá að þeirra tillögu. Þetta er ótrúleg framganga nýkjörinna forustumanna stjórnmálaflokka. Þegar grannt er skoðað er ekki hægt annað en komast að þeirri niðurstöðu að hér sé um endurtekningu á þeim stjórnarháttum sem voru hér við lýði og hafa verið gagnrýndir svo mjög, til dæmis um stuðning Íslands við Íraksstríðið þegar þáverandi ráðherrar, Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, tróðu í gegnum þingmenn sína stuðningi Íslands við stríðið. Þetta er endurtekning á þeim vinnubrögðum.

Ég velti fyrir mér hvaða umboð þetta fólk hefur til þess. Hafa þeir umboð frá landsfundum sínum, sem kaus þá fyrir örfáum dögum eða vikum, til að stöðva stjórnarskrármálið? Þeir töluðu ekki orð um það á þeim landsfundum að þeir mundu grípa til þeirra aðgerða. Þeir voru kosnir á fölskum forsendum.

Það sama gildir um fulltrúa Bjartrar framtíðar. Hefur hann umboð frá baklandi sínu til að stöðva stjórnarskrána í ferli á þinginu? Athyglisvert væri að vita það og hvað borgarstjórinn í Reykjavík og Besti flokkurinn sem hann er í forsvari fyrir vill gera í málinu. Styður Jón Gnarr borgarstjóri það að Björt framtíð taki málið af dagskrá og eyðileggi stjórnarskrármálið? (Gripið fram í: Hvaða umboð hefur þú?)

Frú forseti. Þingmenn Samfylkingar og Vinstri grænna hafa lúffað algerlega fyrir leiðtogum sínum. Þeir hafa flýtt sér í þetta þægilega skjól og vísað ábyrgðinni annað, ekki alveg allir en samt flestir. Formennirnir hafa náð afgerandi stjórn á þingflokkum sínum og kverkataki á þingmönnum sínum. Persónuleg sannfæring þingmanna samkvæmt stjórnarskrá er hér eftir sem endranær einskis virði. Hún var ein á miðvikudagsmorgni í síðustu viku, hún var orðin önnur eftir hádegið af því að formaðurinn sagði það. Þeir þingmenn eru nú að ganga erinda þeirra sem alla tíð hafa viljað eyðileggja nýja stjórnarskrá og koma í veg fyrir að hún verði að veruleika.

Ég spyr: Hvers konar stjórnmálaumhverfi er það sem við búum við? Hvers konar stjórnmálaumhverfi er það? Verður það raunin að lýðveldið Ísland verði ef til vill ekki annað en 70 ára tilraun sem mistekst? Með þessu áframhaldi verður það þannig vegna þess að þeir sem eru kjörnir til að fara með umboð almennings á þingi standa ekki undir því. Valda íslenskir stjórnmálamenn ekki lýðræðinu? Ég efast sjálfur um að þeir geri það. Ef við veitum því athygli hvernig þingmál eru afgreidd á löggjafarþinginu þá er það algerlega tilviljunum háð hvaða frumvörp verða að lögum. Það verður sest niður eftir tvo, þrjá daga í einhverju herberginu í þinghúsinu þar sem formenn flokka munu véla um það á bak við tjöldin hvaða mál verða að lögum og hver ekki. Það eru ekki boðleg vinnubrögð á þingi sem er þjóðþing í lýðræðissamfélagi. Því verður að breyta. Þessi þingsályktunartillaga er sett fram til að reyna að ná fram niðurstöðu í mál þar sem stjórnvöld sem hafna vilja þjóðarinnar verða að víkja.

Hingað munu yfir 30 þingmenn koma og láta í sér heyra á eftir um þetta mál. Þeir munu verða með aðkast að Hreyfingunni, þeir munu vera með aðkast að mér, en þeir ættu að líta í eigin barm og velta í alvöru fyrir sér hver er þeirra pólitíska sannfæring í málinu, hver er framtíðarsýn þeirra fyrir Ísland með fjórflokkinn áfram við völd og gömlu stjórnarskrána því að það er það sem þeir eru að styðja með því að fella þessa tillögu. Vissulega vilja margir hafa óbreytt ástand en það er ekki það sem þjóðin vill og vonandi mun tillagan verða samþykkt og núverandi ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutinn fara frá.