141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[11:03]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég hef áður staðið hér í þessum ræðustól og sagt að ríkisstjórnin væri rúin trausti. Um það snýst þetta vantraust. Í þessum sal og um allt land er fólk sem ekki treystir ríkisstjórninni. Það treystir ekki ríkisstjórninni í efnahagsmálum, ekki í atvinnumálum, ekki í málefnum heimilanna, ekki í alþjóðlegum samskiptum. Þetta er það sem liggur til grundvallar: Vantraust á ríkisstjórninni og störfum hennar. Vantraust á þeirri leið sem valin var, leið skattahækkana og afturhalds sem birtist okkur m.a. í því að á síðasta ári varð hagvöxtur einungis 1% þegar menn voru almennt sammála um að allar forsendur væru til þess að skapa hagvöxt upp á 3 ef ekki 4% á árinu 2012. Ríkisstjórn sem talaði í raun og veru gegn fjárfestingum öll síðastliðin ár og kynnti til sögunnar rammaáætlun um ívilnanir fyrir fjárfestingar en endar svo kjörtímabilið á því að koma með sérlausnir þvert gegn þeirri stefnu sem kynnt var til sögunnar. (Gripið fram í.)

Sú tillaga sem hér liggur fyrir í dag fjallar um það mál sem oft og tíðum hefur sýnt í hnotskurn ranga forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Ég og flutningsmaður tillögunnar erum jafnósammála í því máli og tveir menn geta orðið um nokkurt mál. (Gripið fram í.) Það má segja að stjórnarskrármálið hafi gengið eins og rauður þráður í gegnum allt kjörtímabilið og raunar frá lokum þess síðasta. Frumvarp til stjórnarskipunarlaga um breyting á stjórnarskrá var lagt fram fyrir kosningar 2009 en varð ekki útrætt enda börðumst við sjálfstæðismenn gegn málinu, ekki síst þeirri fyrirætlan að taka stjórnarskrárvaldið af þinginu. Í áherslunni á það atriði kristallaðist ákaflega sérkennilegt andrúmsloft á þinginu sem hefur einkennt allt þetta kjörtímabil. Þar hafa sumir þingmenn talið sér það sérstaklega til framdráttar að ala á virðingarleysi og vantrausti, ekki einungis á þingmönnum heldur gagnvart störfum þingsins almennt. Virðist þar alfarið hafa farið fram hjá þeim sem þannig tala að þeir eru sjálfir í hópi þessa fólks sem þeir telja vart treystandi til nokkurs hlutar og lögðu jafnvel talsvert kapp á að komast í hann. Svo skemmtilega vill til að þeir geta væntanlega flestir þakkað guði, lukkunni og kjósendum að þurfa ekki öllu lengur að bera þann kross. (Gripið fram í.)

Sumarið 2011 skilaði stjórnlagaráð tillögum sínum til forseta Alþingis. Á stjórnlagaráði hvíldi engin skylda til að endurskoða hvert einasta ákvæði stjórnarskrárinnar enda varla hægt að ætlast til slíks á fjögurra mánaða starfstíma eins og flutningsmaður vantrauststillögunnar kom reyndar inn á. Engu að síður fólu tillögur stjórnlagaráðs í sér heildarendurskoðun á stjórnarskránni og 35 nýjar greinar að auki, u.þ.b. eina nýja grein á þriggja daga fresti á starfstíma stjórnlagaráðsins.

Skemmst er frá því að segja að allri gagnrýni á málið hefur að mestu verið mætt með skætingi, hvort sem sú gagnrýni hefur komið fram frá þingmönnum eða fræðimönnum, innlendum eða erlendum. Þeir eru ýmist sagðir „svokallaðir“ fræðimenn, lifa í fílabeinsturni fræðanna eða vera hluti af fræðimannaelítunni. Þannig hefur verið tekið á gagnrýnisröddum og fast haldið í þá stefnu að endurskoða stjórnarskrána í heild, jafnvel þegar löngu var orðið ljóst að öll tímamörk væru löngu liðin. Dylst engum að undir það síðasta réð hvað mestu að núverandi minnihlutastjórn hefur verið í gíslingu smáflokks sem virðist auk þessa máls hafa haft það helst á stefnuskrá sinni að útrýma sjálfum sér með góðum árangri. (Utanrrh.: Hver er í gíslingu hans núna?)

Það er líklega rétt að taka það fram enn einu sinni að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki verið á móti því að endurskoða stjórnarskrána (Gripið fram í: Nú?) Ég heyri það hér í þingsal að þetta hefur enn ekki komist til skila. [Hlátur í þingsal.] Ég heyri það á þingmönnum Samfylkingarinnar og ég heyri það á þingmönnum Vinstri grænna. Það er ágætt að nota þetta tilefni til að segja það hátt og skýrt einu sinni enn: Það þarf ekki að fara leið átaka til að endurskoða stjórnarskrána. Það er ekki ágreiningur um þörf fyrir endurskoðun á stjórnarskránni en menn eiga ekki að viðhafa fúsk og menn eiga ekki að skella skollaeyrum við ábendingum fræðimanna og þeirra sem vel vilja og leggja gott eitt til í endurskoðun á jafnmikilvægu máli og stjórnarskráin er. (Gripið fram í: Þá tekurðu í sáttarhöndina.)

Frá setningu stjórnarskrárinnar 1944 hefur lýðveldisstjórnarskránni verið breytt sjö sinnum. Þar á meðal hefur kjördæma- og kosningaskipun verið breytt tvívegis, skipulag Alþingis og starfshættir endurskoðaðir og settur nýr mannréttindakafli. Þeir frumkvöðlar við endurskoðun stjórnarskrárinnar sem hvað oftast hefur verið vísað til hér í umræðunni sem átt hefur sér stað undanfarin ár eru einmitt forustumenn Sjálfstæðisflokksins, menn eins og Bjarni Benediktsson, Gunnar Thoroddsen hefur oft verið nefndur og aðrir, einmitt forustumenn Sjálfstæðisflokksins sem ítrekað og síendurtekið er vísað til til þess að byggja undir rök fyrir því að eitt og annað þurfi að koma til skoðunar.

Síðasta stóra breytingin á stjórnarskránni, setning mannréttindakaflans, sem er almennt talin vel heppnuð, var einmitt unnin undir forsæti Sjálfstæðisflokksins. Fullyrðingar um að Sjálfstæðisflokkurinn sé á móti öllum breytingum eru einfaldlega tilbúningur þeirra sem hafa viljað kosta öllu til að keyra í gegn vanhugsaðar breytingar.

Það er löngu kominn tími til að staldra við á þeirri vegferð sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa verið í stjórnarskrármálinu og snúa rækilega við blaðinu. Auðvitað þurfum við að huga að ákveðnum atriðum í stjórnarskránni og stjórnskipun landsins. Það er sjálfsagt að setja auðlindaákvæðið í stjórnarskrá, við þurfum að botna umræðu um það hvernig það eigi að vera orðað. Það er sjálfsagt að koma í stjórnarskrá heimildum til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslum. Við þurfum að ræða betur stöðu forseta Íslands og ræða breytingar í þeim tilgangi að styrkja eftirlitsvald þingsins.

Breytingar á þessum atriðum eiga hins vegar að byggjast á yfirveguðu mati á raunverulegum vandamálum og faglegri greiningu á því hvernig þau verða best leyst. Við skulum ekki varpa lýðveldisstjórnarskránni fyrir róða fyrr en við erum viss um að við höfum fundið eitthvað betra.

Á þessum grundvelli er Sjálfstæðisflokkurinn tilbúinn að vinna að áframhaldandi endurskoðun stjórnarskrárinnar, á grundvelli breiðrar samstöðu. Slíkri samstöðu hefur ekki verið fyrir að fara allt þetta kjörtímabil. Það hefur verið sorglegt að horfa upp á þingið í spennitreyju þvermóðsku og hentistefnupólitíkur. Tíma þingsins hefur verið sóað og þjóðþrifamál hafa hvorki fengið þá umræðu né þann forgang sem þau hafa átt skilið, að ekki sé nefndur allur kostnaðurinn við þetta brölt. Hann jafnast á við meira en tíu ára framlög ríkisins til Kvennaathvarfsins og Stígamóta, svo dæmi sé tekið, rúmlega tveggja ára rekstur hjúkrunarheimilanna á Hellu, Eskifirði og á Ólafsfirði eða heilt ár hjá Heilbrigðisstofnun Þingeyinga fyrir niðurskurð.

Þetta mál, heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar, hófst með miklum lúðrablæstri og látum en því lauk í raun síðastliðinn fimmtudag með hljóðlátu andvarpi þegar horfið var frá heildarendurskoðun og lagt til að við mundum fleyta málinu áfram á næsta kjörtímabil og gera einungis breytingar á breytingarákvæðinu, finna því nýjan farveg, eftirláta nýju þingi að ákveða framhald málsins. Allt of miklu hefur verið kostað til, meira en 1 milljarði, milljarði sem hefði betur verið forgangsraðað í þágu þarfari verkefna.

Virðulegi forseti. Ég styð því þetta vantraust, ekki á forsendum Þórs Saaris … [Frammíköll í þingsal.] Frú forseti. Ég styð það vegna þess að það er ekki valkostur að styðja þessa ríkisstjórn. (Utanrrh.: Af hverju lagðirðu ekki fram þitt eigið?) Ég styð vantraustið á forsendum atvinnulífsins og heimilanna, á forsendum okkar sem viljum endurreisn og uppbyggingu og sættum okkur ekki við stöðnun og afturhald. (Gripið fram í: Sjálfstæðisflokkurinn farinn að … Þór Saari.)

Ég bið þá forláts sem hér eru með frammíköll og sakna þess að ég skuli ekki hafa lagt oftar fram vantraust á ríkisstjórnina. (Gripið fram í.) Mér þykir leitt að hafa valdið þeim vonbrigðum en verst af öllu er þó að þeir sem hér láta verst hafa valdið þjóðinni vonbrigðum sem réttlætir stuðning við vantraustið.

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður þingmenn um að gefa ræðumönnum hljóð til að flytja mál sitt.)