141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[11:37]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Mér finnst það almennt mjög mikill ósiður í pólitík að gera öðrum upp skoðanir og fara í ræðustól í þinginu og útlista skoðanir annarra. Ég hef í dag þurft að sitja undir frekar meinfýsnum túlkunum hv. þm. Þórs Saaris á skoðunum mínum í stjórnarskrármálinu. Ég hvet alla þá sem stunda pólitík til að gera þetta ekki. Ég ætla ekki að gera Þór Saari upp neinar fyrirætlanir eða hugsanir í þessu en þetta gerði hann engu að síður. Ég bið fólk um að trúa frekar mér um það hverjar eru skoðanir mínar í stjórnarskrármálinu og nú ætla ég að útlista þær.

Ég hef allt kjörtímabilið verið eindreginn fylgismaður þess að við förum í heildarendurskoðun á stjórnarskránni. Ég sagði já við því að ný stjórnarskrá yrði sett þjóðinni á grunni tillaga stjórnlagaráðs. Ég hef stutt það ferli með ráðum og dáð í mörgum ræðum í þinginu, en hins vegar fyrir nokkrum vikum tókum við, þingmenn Bjartrar framtíðar, hv. þm. Róbert Marshall og ég, stöðuna í þessu máli. Niðurstaðan varð sú að okkur fannst það ákaflega ólíklegt miðað við það hverjar aðfinnslur voru úti í samfélaginu við einstakar greinar frumvarpsins, miðað við það hvernig umræðan í þinginu var um málið, að það tækist að koma málinu í gegnum tvö þing.

Þannig er með þetta mál og það verða allir að átta sig á því að það er alveg sama á þessari stundu í hversu marga lúðra réttlætis og þjóðarvilja við blásum núna og hversu oft við beitum 71. gr. þingskapa og hversu mikið við reynum að olnboga okkur á þessari stundu í átt til atkvæðagreiðslu, að þó að þetta þing núna mundi segja já, jafnvel með tæpum meiri hluta, færi í atkvæðagreiðslu, yrði engin ný stjórnarskrá á þeim tímapunkti. Það er ekki lokaskrefið. Það þurfa að koma kosningar eftir það og svo þarf næsta þing að staðfesta það. Við höfum sagt í Bjartri framtíð að við viljum ekki þröngva málinu til atkvæðagreiðslu núna. Við höfum ekki lagst gegn því, við höfum bara ekki mælt með því. Við höfum sagt: Að þröngva málinu í atkvæðagreiðslu núna gerir það að verkum að málið lokast, það koma kosningar og næsta þing verður að segja af eða á. Því verður stillt upp við vegg: Vill það allan pakkann eða ekkert? Já eða nei?

Við höfum sagt og beðið um að við fengjum skilning á þeim sjónarmiðum að þessi leið kunni að vera vísasta leiðin til að fara með alla heildarendurskoðunina rakleiðis í ruslakistuna.

Mér finnst við hafa mætt víðtækum skilningi á þessum sjónarmiðum og það sem meira er, við höfum lagt fram aðra leið sem við teljum betri til að landa stjórnarskránni. Þá leið höfum við núna lagt fram á þinginu, hv. þingmenn Árni Páll Árnason og Katrín Jakobsdóttir og ég. Hún felur það í sér að við breytum bara því hvernig við breytum stjórnarskránni, að við opnum fyrir það að við getum breytt stjórnarskránni, t.d. á 70 ára afmæli lýðveldisins, með bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég er það mikill lýðræðissinni að ég tel að fátt væri meira við hæfi sem endapunktur á þessu fallega ferli en að þjóðin taki lokaákvörðun um það hvort þetta verði stjórnarskrá lýðveldisins og geri það á 70 ára afmæli þess. Mér finnst það falleg leið.

Þar að auki leggjum við líka fram þingsályktunartillögu þar sem við förum fram á að þingið ákveði að blása skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu um lokaniðurstöðuna. Hér erum við af umhyggju fyrir þessu máli og ferlinu að stinga upp á leið sem leiðir til þess að við fáum nýja stjórnarskrá í meiri sátt, eftir meiri kynningu við þjóðina og á allan hátt eru það að mínu viti betri stjórnmál.

Sú leið endurspeglar hins vegar í huga hv. þm. Þórs Saaris eitthvað sem hann kallar ógeðsstjórnmál. Mér er alveg fyrirmunað að skilja hvernig hann kemst að þeirri niðurstöðu.