141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[11:43]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Spurt er hvort ég treysti þessari ríkisstjórn. Það er góð spurning. Og svarið er fremur einfalt: Mér hefur því miður yfirleitt ekki þótt hún traustsins verð. Ástæðan er ekki stjórnarskrármálið heldur allt hitt.

Ég mun aldrei fyrirgefa það hvernig bankarnir hafa verið endurreistir á kostnað skuldsettra heimila. Ég mun aldrei fyrirgefa það hvernig tækifærin til að leiðrétta þann forsendubrest sem olli stökkbreytingu lánanna okkar voru ekki nýtt. Ég mun aldrei fyrirgefa það að heil kynslóð fólks er nú tæknilega gjaldþrota, eignir hennar og ævisparnaður er gufað upp. Vegna þessa treysti ég ekki þessari ríkisstjórn.

En mér finnst ríkisstjórnin hins vegar ekki bera ábyrgð á því að hugsanlega séum við að glutra niður einstöku tækifæri til að gera heildarendurskoðun á stjórnarskránni. Stjórnarskráin er mál fólksins og mál þingsins, ekki ríkisstjórnarinnar.

Forseti. Alþingi ályktaði þann 28. september 2010 í kjölfar þeirrar vinnu sem fór í gang eftir að rannsóknarnefnd Alþingis skilaði skýrslu sinni og þar stendur meðal annars, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að brýnt sé að starfshættir þingsins verði teknir til endurskoðunar. Mikilvægt sé að Alþingi verji og styrki sjálfstæði sitt og grundvallarhlutverk.

Alþingi ályktar að taka verði gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu alvarlega og leggur áherslu á að af henni verði dreginn lærdómur.“

Svo stendur að Alþingi álykti að fela hinum ýmsu aðilum að endurskoða löggjöf og eftir atvikum undirbúa löggjöf á tilgreindum sviðum. Og hvað er þar fremst í flokki? Endurskoðun á stjórnarskrá lýðveldisins.

Hvað er að okkur? Hvað er að þessu þingi? Af hverju getur þingið ekki klárað þetta mál? Ég sit í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og málið er fullbúið. Menn segja að það sé ekki tími. Það er rugl, það er víst tími. Af hverju skyldu þingmenn ekki vinna út kjörtímabilið?

Forseti. Ég mundi gjarna vilja lýsa vantrausti á ýmsa vegna stjórnarskrármálsins, ég mundi vilja lýsa vantrausti á Árna Pál Árnason, formann Samfylkingarinnar, fyrir að beita sér gegn málinu, máli sem hann virðist ekki einu sinni vera vel inni í. Ég mundi líka vilja lýsa vantrausti á forseta þingsins fyrir að tryggja ekki að málið komist á dagskrá og setja umræðu um það skýr tímamörk. Ég væri líka til í að lýsa vantrausti á Framsóknarflokkinn sem hafði stjórnlagaþing og nýja stjórnarskrá á stefnuskrá sinni fyrir síðustu kosningar en dvelur nú neðan jarðar með félaga Láka jarðálfi. Ég mundi líka vilja geta lýst vantrausti á þingmenn stjórnarflokkanna fyrir að þora ekki að leggja fram dagskrárbreytingartillögu eftir 71. gr. þingskapa til að klára umræðuna og málið.

Forseti. Það er bara ekki í boði, það er ekki spurt um það í dag. Ég styð því vantraust þótt mér finnist þessi ríkisstjórn ekki hafa neitt með stjórnarskrána að gera. Ég vantreysti ríkisstjórninni vegna annarra verka. Ég lýsi hins vegar vantrausti á þetta þing ef það getur ekki staðið við eigin ályktanir og skuldbindingar.