141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[11:54]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þó að æ fleirum sé að verða það ljóst að örendi þessarar ríkisstjórnar er fyrir löngu þrotið þá vil ég samt sem áður segja varðandi þá þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir að ég tel að hún sé sett fram á kolröngum forsendum. Það er einfaldlega fagnaðarefni og mjög mikilvægt að hæstv. ríkisstjórn sé loksins búin að átta sig á því sem langflestum öðrum var auðvitað fyrir löngu orðið ljóst, að það var bæði óraunhæft og mjög óskynsamlegt að ætla sér að reyna að knýja fram heildarendurskoðun á stjórnarskránni með þeim hætti sem að var stefnt í upphafi. Þetta var ljóst á síðustu haustdögum þegar frumvarpið var lagt fram og menn sáu hversu vanbúið það var, hversu mjög vantaði upp á þá efnislegu vinnu sem þurfti að vinna til að hægt væri að endurskoða stjórnarskrána svo að fullur sómi væri að.

Á þeim tíma töluðum við sjálfstæðismenn fyrir því að við reyndum að einangra þessa vinnu við tiltekin efnisatriði, svo sem eins og auðlindaákvæðið og ýmislegt fleira sem við tefldum fram. Ekki var hlustað á það, þá var skollaeyrunum skellt við. Haldið var áfram eins og ekkert hefði í skorist og menn virtust ekki koma auga á það sem blasir nú við flestum og formenn stjórnarflokkanna hafa í raun og veru viðurkennt ásamt formanni Bjartrar framtíðar með þeim þingmálum sem lögð voru fram í síðustu viku varðandi efnismeðferð stjórnarskrármálsins. Einungis hæstv. forsætisráðherra kom skyndilega fram í ræðu áðan og sagði öllum að óvörum að hún teldi ekkert að vanbúnaði að leiða stjórnarskrármálið til lykta. Hvað er hæstv. forsætisráðherra að fara með þessu? Hæstv. forsætisráðherra er með þessum hætti beinlínis að vega að núverandi formanni Samfylkingarinnar og formanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Hæstv. forsætisráðherra er að reyna að gera tilraun þeirra til að koma þessu máli upp úr því hjólfari sem það var komið í tortryggilega. Hæstv. forsætisráðherra er aftursætisbílstjórinn í þessum leiðangri.

Ég vil líka segja varðandi þessa tillögu að það sem lýtur að hugmyndum um að stofna ríkisstjórn allra flokka tel ég ákaflega óraunhæft. Þó að öllum sé ljóst að nánast hvaða ríkisstjórn sem maður gæti hugsað sér yrði betri en sú sem nú situr þá er alveg ljóst mál að ríkisstjórn sem sitja mun hér eftir til kosninga, hvort sem það verður núverandi ríkisstjórn eða önnur, verður eins og hver önnur starfsstjórn. Það blasir við öllum.

Erindi þessarar ríkisstjórnar er fyrir löngu þrotið. Örendi hennar er þrotið. Hún á ekkert erindi hvorki við þingið né þjóðina. Núna er einungis eitt eftir og það er að kasta rekunum. Hæstv. ríkisstjórn er núna búið spil. Það blasir við öllum. Það er svar þjóðarinnar eins og við tökum eftir hvarvetna sem við komum og hvarvetna sem við förum.

Síðustu tölur um hagvöxt á síðasta ári eru í raun og veru eins og löðrungur framan í hæstv. ríkisstjórn. Hvað er langt síðan hæstv. ráðherrar fóru að tala um að landið væri að rísa, við værum komin upp úr öldudalnum, við værum á réttri leið? Síðast birtust okkur tölur um að hagvöxtur hérna sé ríflega 1%. Hvað þýðir það? Það þýðir í raun og veru efnahagslegur samdráttur í þeim skilningi að með 1,6% hagvexti erum við ekki að skapa nægilega mörg störf til að svara eftirspurn þess fólks sem kemur árlega inn á vinnumarkaðinn. Þetta er ávísun á frekara atvinnuleysi. Þetta er ávísun á landflótta. Þetta er ávísun á léleg lífskjör. Hæstv. ríkisstjórn er í raun að skila af sér búinu með þeim hætti. Við lok þessa kjörtímabils blasir sem sagt við samdráttur, vaxandi verðbólga, ávísun á verri lífskjör, erfiðleika heimila og víða í atvinnulífinu eins og við vitum.

Það syrtir líka í álinn jafnvel þar sem betur hefur gengið. Við sjáum það á lækkandi afurðaverði í sjávarútvegi. Við þær aðstæður þurfum við að leggja okkur fram um það að knýja fram breytta atvinnustefnu, ekki þann doða og deyfð sem hæstv. ríkisstjórn hefur verið talsmaður fyrir.

Ef við snúum okkur síðan að skuldavanda heimilanna sem mjög er umræddur þá hefur hæstv. ríkisstjórn og ríkisstjórnarflokkarnir greinilega ákveðið að skila þar auðu. Þegar stjórnarliðar eru spurðir hvað eigi að gera, hvernig eigi að bregðast við þeim vanda sem sannarlega er til staðar á allt of mörgum heimilum í landinu er því svarað með því að segja: Þetta gerðum við. Þeir vísa til fortíðarinnar þegar fólk spyr um hvað eigi að gera í framtíðinni. Það er kannski tímanna tákn og lýsandi um tómlæti og áhugaleysi hæstv. ríkisstjórnar og ríkisstjórnarflokka í þessu máli að árið 2011 og árið 2012 voru sérstakir fjármunir veittir á fjárlögum til þess að greina skuldavanda heimilanna en áhugaleysi hæstv. ríkisstjórnar og ríkisstjórnarflokkanna á þessu var slíkt að þeir kusu að nýta ekki þessa fjármuni. Þeir töldu ekki þörf á því. Þeir töldu enga nauðsyn á því að slík greining færi fram til þess að leggja grunn að því sem gera ætti varðandi skuldamál heimilanna.

Við sjálfstæðismenn höfum hins vegar lagt fram okkar eigin tillögur, raunhæfar tillögur, framkvæmanlegar tillögur sem munu skila 20% lækkun á höfuðstól lána án þess að verið sé að raska grundvelli ríkisfjármálanna í landinu. Við gerum ráð fyrir því að afborganir af lánum upp að ákveðinni upphæð verði frádráttarbærar frá skatti. Við gerum ráð fyrir því að greiða megi það framlag sem nú er greitt inn í séreignarlífeyrissparnað, bæði atvinnurekandaframlagið og einstaklingsframlagið, inn á höfuðstól lána. Afleiðingarnar og áhrifin verða þau sem ég er að segja, allt að 20% lækkun á höfuðstól lána. Það er heilmikill árangur. En það er auðvitað ekki þetta eitt sem dugir við þessar aðstæður.

Í þeirri stöðnun sem ríkir í landinu og birtist okkur í hagvaxtartölum síðasta árs, sem gefa líka til kynna að ekki verði viðsnúningur á þessu ári, þurfum við umfram allt að auka umsvifin. Þar eru mjög mikil tækifæri í okkar góða landi. Mikil tækifæri eru í atvinnulífi okkar sem hefur alla burði til þess, ef það fær rekstrarlegt umhverfi að láta það af sér leiða að auka hér þjóðarframleiðsluna, stækka það sem við höfum til skiptanna og efla þannig og bæta lífskjörin í landinu og skapa störf fyrir þær þúsundir sem koma inn á atvinnumarkaðinn á næstu árum, ungt, dugmikið og vinnufúst fólk sem þarf auðvitað að fá viðspyrnu sinna krafta. Þar þurfum við í fyrsta lagi að afnema þá óvissu sem ríkt hefur í sjávarútveginum sem blasir við öllum og hefur þegar haft mjög neikvæð áhrif. Við þurfum að halda áfram eðlilegri uppbyggingu á sviði stóriðju í góðri sátt við náttúru landsins. Við þurfum að einfalda tolla- og vörugjaldafrumskóginn sem beinir verslun úr landi í vaxandi mæli og störfum þar með. Við þurfum að hverfa frá þeirri skattpíningarstefnu sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir og hyggst koma á varðandi ferðaþjónustuna. Við eigum að reyna að nýta þau fjölmörgu tækifæri sem eru til að mynda í matvælaframleiðslu hér á landi, þar með talið íslenskum landbúnaði sem á sér mikla vaxtarmöguleika ef vel er á spöðunum haldið.

Það verður ekki gert með hæstv. ríkisstjórn. Hún hefur þegar sýnt á sín spil, við vitum hvað við höfum þar og þess vegna hljótum við að styðja vantrauststillögu þrátt fyrir að hún sé svo vanbúin sem um ræðir vegna þess að nú erum við að ræða vantraust á þessa ríkisstjórn og það er hún sem málið snýst um.