141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[12:08]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Strax eftir banka- og efnahagshrunið haustið 2008 var ljóst að brýn þörf væri að taka til margvíslegra aðgerða og taka margar erfiðar og róttækar ákvarðanir. Ein sú helsta sneri að skuldum heimila og fyrirtækja, en þann kjark hafði ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar ekki. Önnur sneri að uppbyggingu atvinnulífsins. Það er þekkt úr hagsögunni að eftir efnahagshrun skapast aðstæður til sóknar í hagvexti og uppbyggingu atvinnulífs. Á Íslandi voru og eru aðstæður til vaxtar sérstaklega góðar. Tækifæri til atvinnusköpunar eru óendanleg — nánast. Við eigum miklar auðlindir sem við erum góð í að nýta og höfum sýnt á liðnum árum að við gerum bæði á sjálfbæran og skynsamlegan hátt þjóðinni til heilla. Við eigum mannauð og mikla þekkingu til að skapa fjölbreytni í atvinnulífi sem við framsóknarmenn höfum svo sannarlega staðið fyrir í gegnum áratugina.

Við framsóknarmenn höfum talað allt kjörtímabilið fyrir því að nýta þau tækifæri. Við höfum trú á landi og þjóð. Þess vegna höfum við meðal annars lagt fram þingsályktunartillögu um sókn í atvinnumálum á þremur undangengnum þingum án þess að ríkisstjórnarflokkarnir, meiri hlutinn í þinginu, hafi tekið hana á dagskrá. Í þeirri þingsályktunartillögu er meðal annars tekið á uppbyggingu fjölbreytts atvinnulífs með það að markmiði að gefa öllum vinnufúsum höndum verkefni við hæfi. Við framsóknarmenn viljum úthýsa atvinnuleysi úr samfélagi okkar.

En hvernig hefur ríkisstjórn VG og Samfylkingar, stundum með stuðningi þingmanna Hreyfingarinnar en oftast með stuðningi þingmanna sem kenna sig við Bjarta framtíð, staðið sig í atvinnumálunum? Pólitísk rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða var keyrð í gegnum þingið í janúar. Stöðnun hefur verið stefna ríkisstjórnarinnar allt þetta kjörtímabil sem nú er að ljúka og það sem verra er, með þessari samþykkt verður stöðnun út þetta ár í þessari mikilvægu atvinnugrein. Við framsóknarmenn munum, ef við fáum umboð til, taka rammaáætlun upp og byggja á niðurstöðu vísindamanna og fagnefnda.

Ríkisstjórnin hefur ítrekað lagt fram breytingar á fiskveiðistjórnarkerfi okkar Íslendinga og sett á ósanngjörn og óhófleg veiðigjöld með þeim afleiðingum að fjölmörg minni fjölskyldufyrirtæki í sjávarútvegi hafa orðið gjaldþrota eða valið að selja sig út úr greininni eða eru að velta því fyrir sér. Þjóðhagslegur ávinningur verður sífellt minni og minni ef farin er sú leið sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa lagt til. Við framsóknarmenn viljum setjast niður, í samráði allra aðila, að reyna að ná sem víðtækastri sátt um sjávarútveginn byggða á þeim grunni sem er kerfið sem við höfum í dag og lagfæra þá agnúa sem á því eru. Þar viljum við sérstaklega ýta undir nýsköpun í greininni. Tækifærin þar eru gríðarleg.

Þannig má nefna fjölmargar aðrar atvinnugreinar og hvernig ríkisstjórnin hefur komið fram við þær, til að mynda ferðaþjónustuna. Þar hafa verið gerðar skyndilegar skattbreytingar og skattahækkanir með engum fyrirvara og án samráðs við greinina. Við framsóknarmenn viljum einfalda regluverk og einfalda skattkerfið og vera jákvæð. Já, við viljum vera jákvæð gagnvart atvinnuuppbyggingu í öllum atvinnugeirum samfélagsins.

Staðreyndin er sú að eftir hrunið hrundi fjárfesting í landinu niður í 12–13% af landsframleiðslu. Sú spá sem liggur nú fyrir er að hér verði um 16% fjárfesting miðað við landsframleiðslu ef þær framkvæmdir fara af stað sem gert er ráð fyrir í málum sem eru hér inni í þinginu í augnablikinu. Á sama tíma hafa aðilar vinnumarkaðarins, hvort sem eru launþegahreyfingar eða atvinnurekendur, bent á að fjárfestingin þurfi að vera yfir 20% til að við komumst út úr þessu ástandi, getum staðið við skuldir okkur og byggt upp atvinnu handa öllum þeim sem það vilja.

Aðilar vinnumarkaðarins hafa misst trú á ríkisstjórninni. Þar er ekkert traust. Slík ríkisstjórn hefði auðvitað átt að fara frá fyrir löngu. Við framsóknarmenn ætlum að byggja upp, fáum við umboð til þess eftir kosningar. Eitt skrefið er að þessi ríkisstjórn fari frá og þess vegna mun ég styðja þá vantrauststillögu sem hér liggur fyrir.