141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[12:40]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Oft segir lítil mynd meira en þúsund orð. Skopmynd Halldórs í Fréttablaðinu á laugardaginn þar sem hv. þm. Þór Saari er sýndur bregða fæti fyrir hæstv. forsætisráðherra rétt áður en hún kemur í mark er táknræn og segir allt sem segja þarf. Hinum megin við marklínuna standa tveir karlar, formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, það hlakkar í þeim við tilburði þingmannsins og þeir bíða rólegir eftir því að þeirra tími muni koma. Svona sér listamaðurinn vantrauststillöguna sem við nú ræðum.

Vantrauststillagan er sögð stafa af óánægju og óþoli vegna hægagangs síðustu vikna í stjórnarskrármálinu, en hverjum er þar um að kenna? Og hverjar verða afleiðingarnar fyrir stjórnarskrármálið sjálft og fyrir öll önnur mál ef tillagan nær fram að ganga? Það er engum blöðum um það að fletta að stjórnarskrármálið er síst betur komið í höndum þeirra sem standa hinum megin við marklínuna á myndinni í Fréttablaðinu. Í þeirra höndum er málið einfaldlega dautt. Punktur. En auk þess að ganga af stjórnarskrármálinu dauðu yrði afleiðingin sú að öll þau góðu mál sem við höfum á borðum okkar yrðu einnig að engu. Þing yrði rofið viku, hálfum mánuði fyrr en ella og karlarnir tveir hinum megin við marklínuna gætu gengið keikari út í kosningavorið en ella.

Er það þetta sem hv. þm. Þór Saari er að kalla eftir? Eða er hann bara að grínast í okkur, eins og krakkarnir segja? Vandinn er sá að vantrauststillaga er ekkert grín. Hún getur heldur aldrei snúist um eitt mál, jafnvel ekki um stjórnarskrána. Hún hlýtur að taka til allra mála sem þessi ríkisstjórn stendur fyrir, þar á meðal stöðu kynjanna sem myndin í Fréttablaðinu fjallar einnig um — þrjár karla og konu sem er felld.

Það er auðvelt að standa á hliðarlínunni. Það er auðvelt að þurfa ekki að bera keflið en geta brugðið fæti fyrir þann sem það gerir og það er auðvelt að standa afskiptalaus hjá og bíða eftir því að andstæðingurinn falli flatur, sérstaklega ef menn hafa ekkert fram að færa.

Ég get ekki orða bundist vegna orða hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur áðan, ég vil nota þetta tækifæri og mótmæla í eitt skipti fyrir öll þeim köpuryrðum, árásum og heift sem er beint gegn hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur. Ég bið menn að gera smáathugun á þeim eftirmælum sem annars vegar Hillary Clinton fær í sínu landi þegar hún stendur upp og segist ætla að hætta og hins vegar forsætisráðherrann okkar sem var einn af örfáum stjórnmálamönnum sem hér var treyst eftir hrun. Hver er munurinn?

Hillary Clinton er harður pólitíkus sem á sér mjög sterka andstæðinga og hún hefur staðið í eldlínunni árum saman en þegar hún hættir bera menn virðingu fyrir verkum hennar og þakka henni fyrir það sem vel er gert þó að þeir hafi ekki alltaf hreint verið sammála henni. Hér sitjum við hins vegar uppi með það, ekki aðeins í þingsal heldur á vefmiðlunum dag eftir dag, að hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir er ötuð auri. Hún er ötuð auri og ég ætla að leyfa mér, frú forseti, að vekja athygli á pistli sem birtist í Morgunblaðinu í síðasta mánuði fljótlega eftir að þau tíðindi gerðust að Hillary Clinton lýsti því yfir 1. febrúar að hún væri að hætta og Jóhanna Sigurðardóttir lýsti því yfir 2. febrúar að hún ætlaði að hætta. Þar skrifar blaðamaðurinn Árni Matthíasson og segir í raun að ef menn lesa bara það sem sagt er um Jóhönnu Sigurðardóttur á vefmiðlum sé það líkast því að hún sé einn mesti þrjótur sem Ísland hefur alið, sannkölluð fordæða. Ég er að vitna hér í Morgunblaðið og Hádegismóa. Ég vek líka athygli á því að í þessari grein er sagt að undir þeim pólitíska dónaskap sem hér viðgengst liggi oftar en ekki andúð á konum á valdastólum sem aftur má rekja til þeirra ranghugmynda sem okkur miðaldra körlum, segir blaðamaðurinn, voru innrættar frá blautu barnsbeini.

Andúð á konum spyr ekki að kynferði, eins og hefur sannast á þeim svívirðingum sem hafa dunið á Jóhönnu Sigurðardóttur á undanförnum vikum og mun eflaust dynja á henni næstu vikur og mánuði.

Ég ætlaði að tala um allt annað en þetta, hreint út sagt, en gat ekki orða bundist. Ég get ekki orða bundist vegna þess að þegar litið er til þess hvað ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur gert hér á undanförnum fjórum árum, ekki bara fyrir konur í landinu heldur alla þegna af báðum kynjum, er listinn mjög langur. Ég nefni átak gegn kynferðislegu ofbeldi gegn börnum, að fyrningarákvæði vegna kynferðisbrota gegn börnum voru felld niður, aðgerðaáætlun gegn mansali, kaup á vændi gerð refsiverð, súlustaðir bannaðir, austurríska leiðin leidd í lög, vörður staðinn um velferðarkerfið, þrepaskipt skattkerfi, jafn fjöldi kvenna og karla í ríkisstjórn. Við höfum framfylgt lögum um jafnt kynjahlutfall í stjórnum og ráðum, verið með átak gegn klámi, tekið upp nýja aðalnámskrá fyrir öll skólastig þar sem jafnréttismenntun er einn af meginþáttunum, innleitt ein hjúskaparlög fyrir alla, tæknifrjóvgun fyrir einstæðar konur og lesbíur, sett á aðgerðahóp gegn kynbundnum launamun og stigið fyrstu skrefin í kynjaðri hagstjórn.

Ég gæti haldið áfram lengi enn. Þessi listi er mjög langur, en við höfum ekki náð öllum þeim árangri sem við ætluðum okkur á sviði jafnréttisbaráttunnar. Fjögur ár eru skammur tími til þess. Við þurfum fjögur ár í viðbót til að koma lagi á þetta land, til þess að það verði heilbrigt fyrir bæði karla og konur, til þess að allir geti notið jafnréttis hér.

Svo eigum við auðvitað að samþykkja stjórnarskrána eins og hún liggur fyrir og fella vantrauststillögu Þórs Saaris. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)