141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[14:15]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Þessi umræða hefur um margt verið sérstök. Hún hefur kannski öðru fremur einkennst af loforðalista helmingaskiptaflokkanna sem lofa nú öllu fögru í aðdraganda kosninga. Vonandi mun nú almenningur og fjölmiðlar ekki bregðast hlutverki sínu og rýna vel í þær tillögur sem fram eru komnar um ís fyrir alla, nammi alla daga og engar skemmdar tennur.

Virðulegi forseti. Þegar Framsóknarflokkurinn stígur fram og lofar því að afnema verðtrygginguna þá er það líklega það allra vitlausasta sem hægt er að gera vegna þess að mikilvægt er fyrir heimilin í landinu að hafa valkosti um lánamöguleika sína. Fólk þarf að geta valið á milli þess að taka verðtryggð lán eða óverðtryggð lán. Aukinheldur ætlar Framsóknarflokkurinn ekki að koma fram með neinar skýrar tillögur um það hvernig beri að afnema verðtrygginguna, þeir ætla að skipa nefnd og hún á að skila í september.

Virðulegi forseti. Það hefur líka verið sérstakt í þessari umræðu að þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks koma nú fram í skjóli hv. þm. Þórs Saaris. Það allra sérkennilegasta er kannski sú staðreynd að hv. þm. Þór Saari leggur vantrauststillöguna fram á grundvelli þess að ekki hafi nægum árangri verið náð í stjórnarskrármálinu en vísasta leiðin til að rústa ferli stjórnarskrármálsins er einmitt að samþykkja tillöguna.

Mig langar að beina sjónum mínum, virðulegi forseti, að þeirri sáttatillögu sem liggur fyrir þinginu og er til umræðu á vettvangi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Þar er verið að tala um tvær hugmyndir. Annars vegar þann möguleika að geta breytt stjórnarskránni á næsta kjörtímabili ef næg sátt myndast um það í þessum sal, 60% þingmanna styðji þá breytingu, og hitt að 60% þjóðarinnar séu sátt við þá breytingu sem lögð er til á stjórnarskrá. Sá möguleiki er til staðar en áfram er hægt að breyta stjórnarskránni eftir því breytingarákvæði sem er í gildi í dag. Þannig er þess freistað að fullkanna á Alþingi Íslendinga, sem kosið verður eftir nokkrar vikur, hvort þingmenn séu í raun og veru tilbúnir til að vinna saman að því að breyta stjórnarskránni.

Hér er verið að bjóða upp í dans af hálfu formanna Vinstri grænna, Samfylkingar og Bjartrar framtíðar og nú er spurningin hvort þingmenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, sem tala mikið um sátt og samvinnu, betri vinnubrögð og meiri tíma, standi í raun og veru við þær fullyrðingar sínar. Meina þeir það sem þeir eru að segja? Ætla þeir að koma með okkur í það verkefni að breyta stjórnarskránni? Ætla þeir að koma með okkur í það verkefni að fylgja þjóðarviljanum sem kom fram 20. október, þar sem þjóðin kvað skýrt á um að hún vildi heildarendurskoðun stjórnarskrár byggða á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs?

Menn geta trútt um talað, komið hér í ræðustól á hátíðisdögum, í eldhúsdagsumræðum og talað um mikilvægi þess að ná sátt og samvinnu; heildarendurskoðun skuli vinna hér í samvinnu allra stjórnmálaflokka. Nú hafa menn tækifæri til þess að mæta til leiks og koma með okkur í verkefnið. Er einhver dugur í leiðtogum stjórnarandstöðunnar? Eru þeir tilbúnir til að taka í þá sáttarhönd sem fram hefur verið rétt? Ætla þeir að koma með okkur í það verkefni að breyta stjórnarskránni, í alvöru talað? Nú hafa menn tækifæri til þess að koma með í það verkefni, í raun og veru einstakt tækifæri.

Nú er það bara spurningin, boltinn er kominn til þeirra: Ætla þeir að koma með okkur í það verkefni að framfylgja þjóðarviljanum? Við erum tilbúin í það, við erum tilbúin til að skipa nefnd fagmanna sem tekur þær hugmyndir sem unnið hefur verið með og heldur áfram og kemur svo með tillögu til þingsins þar sem við getum leitað leiða til að ná sátt, 2/3 eða 3/4 eða 3/5 hlutar þingmanna geta staðið á bak við þá tillögu. Við erum að opna á þann möguleika að leita að sátt meðal þjóðarinnar. Nú stendur það eiginlega upp á þá þingmenn sem hvað harðast hafa talað um mikilvægi þess að ná sátt um breytingar hvað þeir vilja í raun og veru gera. Í hvað eru þeir tilbúnir? Eru þeir tilbúnir til að koma með okkur í það verkefni á næsta kjörtímabili að breyta stjórnarskrá Íslands?