141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[14:19]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr):

Frú forseti. Það hefur um margt verið áhugavert að hlusta á þessa umræðu. Meira en 30 þingmenn hafa talað hér og því miður hafa flestir þeirra flutt fremur marklitlar kosningaræður, ýmist að litlu eða öllu leyti, og mjög fáir hafa talað um vilja þjóðarinnar og sérstaklega þá þingmenn stjórnarliða.

Þeir hafa lítið viljað tala um það að þjóðin ákvað í þjóðaratkvæðagreiðslu að fá þessa stjórnarskrá með yfirgnæfandi meiri hluta. Formaður Samfylkingarinnar, formaður Vinstri grænna og formaður Bjartrar framtíðar hafa ákveðið að hunsa þá þjóðaratkvæðagreiðslu, þeir hafa lítið viljað minnast á það.

Frú forseti. Rökstuðningur þeirra var sá, að ekki væri nægur tími til að afgreiða málið. En það er yfirdrifið nægur tími og hefur alltaf verið ef menn einfaldlega vilja. Það er ekkert mál að afgreiða þetta mál á einni viku. Menn voru búnir að tala hér um fjárlögin í næstum því 50 klukkutíma þegar allir voru löngu búnir að fá upp í kok af þeirri umræðu. Það er nægur tími til að klára 2. umr. um stjórnarskrána og klára málið, ef menn vilja. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Tilvitnun hv. þm. Róberts Marshalls, um þorpið sem þurfi að eyða til að bjarga því, má snúa upp á hann sjálfan með stuðningi hans við þessa tillögu. Tillaga hans og félaga hans, hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar, er einmitt að drepa málið í stað þess að bjarga því. Og þeir kollegar eru búnir að grafa undan því, vikum og mánuðum saman, leynt og ljóst. Það er útilokað að við hér á þinginu, eða hv. þm. Guðmundur Steingrímsson og félagi, getum bundið hendur næsta þings, það er útilokað mál. Það vita þeir og því eru einhverjar aðrar ástæður að baki en látið er í veðri vaka.

Það eru engar líkur á því að svo verði. Og hvers konar ímyndun er það að betra samkomulag verði á Alþingi Íslendinga 28. apríl frekar en 27. apríl eða 11. mars? Hvers konar órar eru þetta? Þetta eru órar einir sem menn setja fram í einhverju rugli og ætla sér svo að samþykkja í þjóðaratkvæðagreiðslu með tárvot augu 17. júní 2014, nýja stjórnarskrá. Þetta fólk býr í einhverjum skáldsagnaheimi. Í stað þess að ræða hér af ábyrgð um nýja stjórnarskrá sem þjóðin vill koma menn fram með svona endemisvitleysu og fá til fylgis við sig formann Samfylkingarinnar og formann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Forseti. Það fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla um nýja stjórnarskrá. Yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar, yfir 67%, sagði já en lítill hópur manna á þingi ætlar að hunsa það. Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki var slétt sama um þjóðaratkvæðagreiðsluna og hafa að sjálfsögðu talað hana niður við hvert tækifæri en aðrir á þingi á sínum tíma virtust ætla að fara að vilja þjóðarinnar, að minnsta kosti framan af.

Því miður, frú forseti, hefur það komið í ljós enn einu sinni að Alþingi er um megn að breyta stjórnarskrá Íslendinga. Stjórnmálastéttin, sitjandi þingmenn, fjórflokkurinn, ræður málinu alfarið, vill ráða málinu alfarið og ætlar sér að ráða málinu alfarið. Þeir vilja ekki beint lýðræði, þeir vilja ekki auðlindaákvæði, þeir vilja ekki brotthvarf ráðherra af þingi, þeir vilja ekki persónukjör. Og það er athyglisvert í umræðunni í dag þar sem menn hafa verið að tala um auðlindaákvæði og persónukjör, að það var einmitt fulltrúi VG í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem barði það í gegn að auðlindaákvæðið er nánast orðið steingelt. Það er efnisbreytt og gjörbreytt frá því sem var í þjóðaratkvæðagreiðslunni að kröfu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og það sama má segja um persónukjörið. Þó að ákvæði um það sé enn þá inni er það í útvatnaðri mynd. Það er ekki gagnslaust en það er alls ekki það sama og var ætlun stjórnlagaráðs á sínum tíma. Það er einnig að kröfu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Það er komið í ljós, frú forseti, að stjórnmálastéttin, sitjandi þingmenn, fjórflokkurinn, vill ráða málinu alfarið. Það kom fram í máli hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur fyrr í dag að kjörið á stjórnlagaþing hefði ekki endurspeglað þjóðina og ekki fólk af landsbyggðinni. Því hefur oft verið haldið fram en það er algengur misskilningur. Það rétta er hins vegar að það var fullkomið hlutfall milli þeirra sem buðu sig fram til kjörs á stjórnlagaþings og þeirra sem voru kosnir á það. Það var jafnt hlutfall fólks af landsbyggðinni á stjórnlagaþingi og bauð sig fram til kosninga, þannig var það bara. Þó að þeir hafi verið allt of fáir í mínum huga var hlutfallið samt eðlilegt, þannig að það leiðréttist hér með.

Frú forseti. Þetta er ekki vantrauststillaga á störf ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu þó að af nægu sé að taka þar eins og fram hefur komið. Við í Hreyfingunni studdum þá vantrauststillögu sem kom fram fyrir tveimur árum. Þetta er vantraust vegna þess að lítil klíka á Alþingi vanvirðir fullkomlega niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar þann 20. október og þann vilja þjóðarinnar sem þar kom fram. Í stað þess að taka ákvörðun með þjóðinni á miðvikudeginum í síðustu viku, þar sem til stóð að hafa málið áfram á dagskrá, ákveða formenn Samfylkingar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar að loforðið við þjóðina skuli svikið, að niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar skuli hent í ruslið. Í staðinn koma þeir fram með fullkomna óra um að við á þessu þingi munum binda hendur næsta þings og ákveða að það þing klári með einhverjum hætti stjórnarskrármálið. Eins og ég hef oft sagt áður eru þetta órar einir og settir fram til þess eins að blekkja.

Forseti. Það er einfaldlega að mínu mati fullkomlega siðlaust að slíkt fólk hafi völd og það er hættulegt lýðræðinu ef það verður framgangur mála í framtíðinni á Íslandi að þjóðaratkvæðagreiðslur séu afgreiddar sem merkingarlaus fyrirbæri vegna þess að lítill hópur fólks, stjórnmálastéttin, þingmenn, fjórflokkurinn, vill ekkert með þær hafa.

Forseti. Talað hefur verið um að síðari hluta þessarar tillögu sé um margt sérkennilegur. Þar er lagt til að þing verði rofið, efnt til kosninga og hér sitji ný ríkisstjórn skipuð fulltrúum allra flokka á þingi. Það er einfaldlega lagt til af minni hálfu og er fullkomlega eðlilegt vegna þess að ég tel að sú ríkisstjórn sem nú situr í umboði þingsins hafi ekkert með það að gera að sitja áfram, ekki deginum lengur. Þess vegna er einfaldlega lagt til að ný ríkisstjórn taki við, skipuð fulltrúum allra flokka á þingi, hverjir svo sem það verða. Það er hins vegar, samkvæmt stjórnarskipunarlögum sem við búum við í dag á valdi forseta Íslands að ákveða með framhaldið þegar þar að kemur. Það er hins vegar rangt sem fram kom frá hæstv. forsætisráðherra áðan að þessi tillaga sé ef til vill ekki þingtæk. Það var kannað hjá fræðimönnum, það var kannað hjá lögfræðingum og það var kannað hjá lögfræðingum Alþingis.

Það er sérkennileg afstaða að halda því fram að Alþingi Íslendinga megi ekki álykta eins og því sýnist en byggist kannski á því að sumt fólk hefur verið við völd aðeins of lengi. Það er fullkomlega eðlilegt að lýsa vantrausti á ríkisstjórnina við þessar aðstæður og það er fullkomlega eðlilegt að vilja að sú ríkisstjórn sem situr í umboði meiri hlutans fari frá og finni sér eitthvað annað að gera frá og með síðdeginu í dag. Vonandi verður það.

Ég hef ekki óskað eftir, þegar ég vann þessa tillögu og lagði hana fram, stuðningi eins eða neins við hana og ekki reynt að afla henni stuðnings innan neins flokks á þingi, ekki hjá Sjálfstæðisflokknum, ekki hjá Framsóknarflokki og ég hef ekki leitað eftir stuðningi hjá félögum mínum í Hreyfingunni heldur. Ég hef lagt þessa tillögu fram sjálfur vegna þess að hjarta mitt býður mér að gera það. Mér finnst það algjörlega óþolandi og óboðlegt í lýðræðissamfélagi að á þingi skuli sitja meiri hluti sem vill stöðva framgang niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu. Þess vegna legg ég tillöguna fram og þess vegna leyfi ég mér að höfða til sannfæringar og til samvisku þingmanna þegar kemur að virðingu fyrir þjóðinni, að þeir taki afstöðu með mér og samþykki þessa tillögu þannig að þing verði rofið og núverandi ríkisstjórn fari frá. Ég er ekki í neinum pólitískum keiluleik eins og margir aðrir. Eins og fram hefur komið hafa flestar ræður hér verið einhvers konar kosningaræður og ef ekkert kemur út úr þessum degi annað en það er það þó virðingarvert að hægt verður að aflýsa eldhúsdagsumræðum eftir tvo daga því að þær hafa þegar farið fram. [Hlátur í þingsal.]

Frú forseti. Þessi tillaga talar fyrir sig sjálf. Ég er stoltur af því að flytja hana en mér finnst hörmulegt að horfa á það að fulltrúar almennings á Alþingi, lýðræðislega kjörnir fulltrúar, taki niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október, rífi hana í tætlur og hendi henni í ruslið vegna þess að einhverjir órar ráða ríkjum í höfði formanna Samfylkingar og Vinstri grænna, órar um að 28. apríl verði betra samkomulag á Alþingi um að afgreiða stjórnarskrá. Hvað hafa þeir fyrir sér í því? Hvað hafa þeir fyrir sér í því annað en eigin drauma um mikilmennsku? Ég spyr þá: Hvað hafa þeir fyrir sér í því? Það verður ekkert öðruvísi í framhaldinu nema ef til vill að einhver af nýju framboðunum, sem hafi þá siðvit til að bera, muni ná framgangi í kosningunum. Það er hins vegar þjóðarinnar að ákveða hvort hún vill fjórflokkinn áfram, hvort hún vill klíkuskapinn áfram. Vonandi tekst þjóðinni vel upp í þeim kosningum.

Frú forseti. Í greinargerð með þessari tillögu segir eftirfarandi, og það segir í raun allt sem þarf, með leyfi forseta — og ég lýk máli mínu þegar ég hef lokið við að lesa þetta:

„Með hliðsjón af því grundvallaratriði í lýðræðisríkjum að allt vald komi frá þjóðinni virðist ríkisstjórnin ganga í berhögg við augljósan vilja þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá. Slíkri ríkisstjórn er eðli málsins samkvæmt ekki stætt að vera við völd og ber því að fara frá.“