141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[14:45]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það var sérkennilegt að hlusta á leiðtoga stjórnarflokkanna og hæstv. ráðherra Steingrím J. Sigfússon og Össur Skarphéðinsson fara yfir það að helstu rökin fyrir því að ekki mætti fella ríkisstjórnina væru þau að tillaga þar um kæmi frá Þór Saari. Aðalatriðið var ekki innihald tillögunnar eða það að ríkisstjórnin ætti skilið að lifa, aðalatriðið var að ekki mætti styðja tillöguna vegna þess hver lagði hana fram. Á sama tíma þykjast stjórnarliðar vera að bjóða sáttatillögu við þinglok. Með sömu rökum ætti stjórnarandstaða ekki að líta á slíkar tillögur vegna þess hvaðan þær koma.

Hér er eingöngu verið að greiða atkvæði um hvort þingmenn beri traust til ríkisstjórnarinnar, ekki um þingrof, ekki um hver lagði tillöguna fram eða rök hans, aðeins um það hvort menn telji að á undanförnum fjórum árum hafi ríkisstjórnin unnið sér inn traust eða ekki, ríkisstjórn sem er svo slæm að nýr formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Árni Páll Árnason, treystir sér ekki einu til þess að taka sæti í henni. [Hlátur í þingsal.]