141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[14:53]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég hlýddi með athygli á ræðu hv. þm. Árna Páls Árnasonar um mikilvægi þess að menn vönduðu orð sín og reyndu að ná sátt í samfélaginu. Ég get ekki sagt að margt af því sem ég heyrði í dag hafi verið til þess fallið og vil m.a. benda á þau orð sem féllu hér rétt áðan.

Stjórnarskrármálið er í þeim vanda sem það er nú ekki vegna þess að stjórnarandstaðan hefur þvælst fyrir, eins og stundum er sagt. Það er statt í þeim vanda vegna þess að það kom vanbúið til þings. Langflestir fræðimenn sem fjallað hafa um málið hafa varað við því af miklum þunga en á það hefur lítt verið hlustað (Gripið fram í.) og oft svarað með skætingi af hálfu þeirra sem verið hafa í forustu fyrir málið.

Virðulegi forseti. Ég greiði atkvæði með því að þessi ríkisstjórn fari vegna þess að henni hefur mistekist að tryggja grundvöll hér á landi fyrir myndarlegan hagvöxt sem við þurftum á að halda.

Nýjustu fréttir frá Hagstofu Íslands sýna að það sem við töldum að yrði hagvöxtur upp á 3,1%, og ríkisstjórnin lagði svo (Forseti hringir.) mikla áherslu á og gumaði sig af, (Gripið fram í.) varð í raun og veru bara 1,6%. Það eitt sýnir hvernig þessari ríkisstjórn hefur mistekist. Hún á að fara. Ég mun segja já (Forseti hringir.) við því að ríkisstjórnin fari frá.