141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[15:19]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Mönnum hefur orðið nokkuð tíðrætt um þjóðarvilja. Það má svo vera að ríkisstjórninni, þeirri minnihlutastjórn, takist að afla sér nægilegs fylgis í atkvæðagreiðslunni og standi af sér vantraustið. Ég skal ekki fullyrða um það, það mun koma í ljós. Af því að þjóðarvilji hefur verið nefndur er rétt að huga að einu, staða ríkisstjórnarinnar hjá þjóðinni er sú að ekki er nema sjálfsagt að greiða því atkvæði sitt að hún fari frá.

Rifjum upp ummæli þeirra sem ríkisstjórnin þarf að hafa samstarf við og það ríkulegt og náið til að ná árangri í efnahagsmálum. Þeir sem veita forustu fyrir Alþýðusamband Íslands hafa sagt að bíða verði eftir nýrri ríkisstjórn vegna þess að ekki sé hægt að vinna með þessari þar sem hún brýtur og svíkur þau loforð sem hún gefur. Sama hefur komið fram hjá þeim sem eru í forustu fyrir atvinnurekendur í landinu. Þannig að hvort sem er þjóðin sem segir sína skoðun í skoðanakönnunum eða þeir sem mest þurfa að vinna með ríkisstjórninni, allir gefa sömu einkunn. Þessi ríkisstjórn á að fara frá og þess vegna, virðulegi forseti, segi ég já. Hún á að fara frá (Forseti hringir.) og því fyrr því betra.