141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[15:20]
Horfa

Jón Bjarnason (U):

Virðulegi frú forseti. Þessi ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er svo sannarlega ríkisstjórn brostinna væntinga og í mörgum grundvallarmálum hefur ríkisstjórnin ekki staðið við gefin loforð. Umsókninni að Evrópusambandinu sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð studdi gegn samþykktum sínum, gegn vilja félaga sinna og kjósenda, gegn kosningaloforðum, verður haldið áfram komist ríkisstjórnin til valda eftir kosningar. Það er því ekki ríkisstjórn að mínu skapi.

Hins vegar er sú vantrauststillaga sem er flutt á síðustu metrum fyrir kosningar að mínu viti bæði óábyrg og ómálefnaleg. Ég hefði verið til í að greiða atkvæði með þjóðaratkvæðagreiðslu ef við værum að greiða atkvæði um tillögu mína sem var stöðvuð í utanríkismálanefnd um Evrópusambandið og var ekki þorað að láta fara þaðan út. (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) Frú forseti. Ég tek ekki þátt í þeim skrípaleik sem er á ferðinni með þessari vantrauststillögu. Ég greiði því ekki atkvæði og sit hjá en við tökum á því máli í næstu kosningum.