141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

uppbygging hjúkrunarrýma í Hafnarfirði.

[16:04]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður segir að hjúkrunarrýmum hafi fækkað á kjörtímabilinu sem er rétt, en á sama tíma hefur sambýlum, þvinguðum sambýlum eða fjölbýlum fækkað og búið miklu betur að þeim sem búa á hjúkrunarheimilum víðast hvar um landið.

Það er rétt sem hv. þingmaður kom að að á nokkrum stöðum var farið út í svokallaða leiguleið þar sem gerður var samningur við sveitarfélög sem fjármögnuðu með lántöku byggingu á nýjum hjúkrunarheimilum. Þannig átti að fjölga rýmum á höfuðborgarsvæðinu, m.a. í Hafnarfirði, Seltjarnarnesi, Kópavogi og í Mosfellsbæ. Heimilið er að klárast í Mosfellsbæ og reyndar líka í Garðabæ en á Seltjarnarnesi, í Kópavogi og Hafnarfirði hafa þessar framkvæmdir ekki farið í gang, illu heilli, því við viljum gjarnan að þær geri það.

Það er alfarið í höndum bæjaryfirvalda í Hafnarfirði hvernig þau fara í þessar framkvæmdir í heimahéraði enda eru það bæjaryfirvöld sem taka á sig skuldbindinguna, ríkið skuldbindur sig til að greiða leiguna til baka. Ég ætla því ekki að blanda mér í þær deilur. Við höfum að sjálfsögðu verið í viðræðum við Hafnarfjörð og sendar hafa verið áminningar og fyrirspurnir um það hvort þeir ætli ekki að ráðast í framkvæmdir, því það er mikilvægt að fá þessi rými og fjölga hjúkrunarrýmum á höfuðborgarsvæðinu. En við munum ekki blanda okkur í innanbúðardeilur hjá bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði hvað þetta varðar.

Sólvangur er sérmál sem hefur verið í skoðun í framhaldi af lokun St. Jósefsspítala og rekstursins þar og er í sérstöku ferli, þannig að ég ætla ekki að blanda því í þessa umræðu.