141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

uppbygging hjúkrunarrýma í Hafnarfirði.

[16:07]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki alveg hvaða loforð hv. þingmaður er að herma upp á mig, því þau loforð sem hv. þingmaður ræðir um hafa að minnsta kosti ekki verið gefin af mér. Hvort við séum reiðubúin að skoða ákveðnar lausnir varðandi Sólvang og Vellina þá er það auðvitað í höndum bæjaryfirvalda, eins og ég sagði áður, hvort þau óski eftir því að þær viðræður fari fram. Við erum að sjálfsögðu ávallt tilbúin að ræða við bæjaryfirvöld í Hafnarfirði og höfum gert það varðandi nýtinguna á húsnæðinu hjá St. Jósefsspítala og framtíðina þar á svæðinu.

Varðandi það hvar sé fljótlegast að útvega rými hefur verið í skoðun fyrirspurn frá Reykjavíkurborg um viðbótarrými sem er stutt í. Ákveðnar stofnanir geta bætt við sig rýmum ef við höfum fjármuni til að fjármagna þau. Vífilsstaðir eru að losna núna þegar Garðbæingar fara með sitt hjúkrunarheimili þaðan. Við eigum því ýmsa kosti í stöðunni og einmitt þessa klukkutímana og dagana er verið að skoða hvernig hægt er að bregðast við til að tryggja að fólk sitji ekki fast á sjúkrahúsum og komist í hjúkrunarrými.

Ég ítreka að (Forseti hringir.) meginárangurinn á þessu kjörtímabili hefur verið uppbygging og bætt aðstaða fyrir þá sem eru í hjúkrunarrýmum.