141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

lagaumhverfi búseturéttar- og samvinnufélaga.

[16:09]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að óska hæstv. velferðarráðherra til hamingju með nýjan stuðningsflokk ríkisstjórnarinnar, Bjarta framtíð, sem og þann bakstuðningshóp sem felst í stuðningi regnbogadrengjanna sem eru að undirbúa framboð. Nú er ljóst að ríkisstjórnin mun hafa tíma til loka kjörtímabilsins til að vinna að góðum málum og koma þeim í gegnum þingið.

Ég vil því spyrja hæstv. velferðarráðherra að hvaða verkefnum sé verið að vinna í ráðuneytinu vegna skuldsettra heimila og hvort við í þinginu getum átt von á því að hingað inn komi einhverjar lagabreytingar eða fyrirmæli sem þurfi að breyta í lögum til að geta komið til móts við skuldsett heimili, ekki síst í ljósi þess að þessa dagana og vikurnar hefur fólk í vaxandi mæli verið að missa húsnæði sitt. Ég spurði hæstv. innanríkisráðherra um daginn hvort verið væri að vinna að slíkum verkefnum í ráðuneyti hans og þar varð nú fátt um svör.

Nú spyr ég hæstv. velferðarráðherra ekki síst vegna búseturéttarformsins þar sem eru félög eins og Búseti, samvinnufélög og sameignarfélög, sem eru gjarnan fyrir 50 ára og eldri, eru með verðtryggð lán sem hafa eins og allir aðrir lent í hinum stökkbreyttu aðstæðum og geta ekki staðið við sitt. Þeim standa nú til boða mjög harðir skilmálar af hendi Íbúðalánasjóðs um afskriftir og niðurfellingu þar sem menn tapa öllu sínu og það sem verra er, tapa búseturéttinum líka. Hann virðist ekki vera tryggður í lögum.

Því spyr ég, frú forseti, hæstv. velferðarráðherra hvort verið sé að vinna að einhverju í þessa veru í ráðuneytinu. Megum við búast við því á næstu dögum að ráðuneytið leggi fyrir þingið einhverjar (Forseti hringir.) lagabætur eða er hægt að leysa þessi mál með verklagsreglum innan ráðuneytisins?