141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

lagaumhverfi búseturéttar- og samvinnufélaga.

[16:11]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. Ég held að sé gríðarlega mikilvægt að við ræðum einmitt þessi mál. Hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni má vera ljóst að við unnum gríðarlega góða skýrslu um húsnæðismálin og hvað þyrfti að gera varðandi þá þætti, einmitt til að jafna stöðu leigjenda og þeirra sem eignast íbúðir á markaðnum, vegna þess að það hafði misfarist. Við höfðum rústað félagslega íbúðalánakerfinu í tíð ónefndra flokka, svo maður móðgi nú engan, fyrir hrun og leigumarkaðurinn hafði í rauninni lagst í rúst fyrir hrunið vegna þess að menn höfðu farið út í byggingarfélög og selt svo meira og minna ofan af þeim sem þar voru að leigja.

Það er rétt sem hv. þingmaður bendir á. Það er mjög mikilvægt að við reynum að halda í húsnæðissamvinnufélögin og þau félög sem enn þá lifa, bæði námsmannafélögin og Félagsbústaði, Brynju o.s.frv. Að þessu öllu er unnið. Það á ekki að þurfa lagabreytingar hvað þetta varðar sérstaklega en það gæti þurft styrkingu á lagaumhverfinu, sem væntanlega kemur inn í haust, sérstaklega fyrir búsetafélögin og samvinnufélögin. Að því hefur verið unnið og verður skýrslu skilað um þau úrræði.

Að öðru leyti er hárrétt líka hjá hv. þingmanni að stöðugt hefur verið unnið að úrlausnum vegna skuldavandans og greiðsluvandans. Mjög fljótlega er von á skýrslu þar sem farið er yfir það hver staðan er nákvæmlega í þeim málum, hvað hefur áunnist og hvað er ógert. Það hefur margoft komið fram í umræðunni varðandi útfærslu okkar á 110%-leiðinni að þar hefur okkur vantað úrræði fyrir þá sem voru með lánsveðin. Það er enn þá verið að vinna í því. Það er líka að sjálfsögðu verið að skoða hvernig hægt er að halda áfram vaxtabótagreiðslum og fleiri þáttum sem þar koma til.

Ég held að öllum sem hafa komið að þessum málum og þar með Framsóknarflokknum sé ljóst að það eru engar einfaldar lausnir í þessu. Ég held að öllum eigi að vera ljóst, eftir allar þær tilraunir sem hafa komið fram, að lausnirnar eru ekki einfaldar, og enda yfirleitt tillögur framsóknarmanna á (Forseti hringir.) því að það eigi að setja upp nefnd og skoða málið.