141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

útboð á sjúkraflugi.

[16:21]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Síðastliðið haust var boðið út sjúkraflug fyrir landið allt. Ákveðin mistök voru að mínu mati augljós í því útboði, m.a. vegna þess að útboðið var ákveðið með mjög stuttum fyrirvara, nokkurra daga fyrirvara, og útboðsreglurnar voru ekki bundnar við almennar kröfur í flugi eða almenna þjónustu heldur við eitt fyrirtæki á Íslandi. Meira að segja vélarnar sem fyrirtækið átti voru nánast tilgreindar. Þetta var ekki útboð. Þetta var úthlutun.

Dráttur á þessu útboði varð vegna þess að uppi höfðu verið hugmyndir um að Landhelgisgæslan gæti tekið að sér þetta flug. Það er reyndar algjörlega óraunhæft. Það vita allir sem vinna og þekkja til flugs. Það er tíu til fimmtán sinnum dýrara að reka sjúkraflug með þyrlum en tveggja hreyfla vélum sem fullnægja öllum kröfum. Þar fyrir utan geta þyrlurnar ekki og sinna ekki nema um 10% af sjúkraflugi á landinu. Þær eru góðar í sérstökum tilvikum en ekki í hinu almenna sjúkraflugi, hvorki með tilliti til tímasetningar né þjónustu sem skiptir máli.

Hæstv. velferðarráðherra gaf í skyn í haust að unnið yrði að því að breyta þessum reglum og færa þær til skynsamlegra horfs þannig að hægt væri að reikna með þjónustu með tilliti til ákveðinna landsvæða. Auðvitað hentar til dæmis ekki Vestmannaeyjum og Hornafirði að hafa sjúkraflug frá Akureyri. Það bara hentar ekki. Það er alveg út úr kortinu. Þótt Mýflug hafi sinnt þessu flugi vel yfir landið í heild þá hentar þetta ekki. Ef hægt er að hafa sjúkraflug til að mynda í Vestmannaeyjum (Forseti hringir.) án þess að kalla til nýjar vélar þá skiptir það máli.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé byrjaður að vinna að undirbúningi þessa máls sem skiptir mjög miklu máli fyrir öryggisþjónustu í sjúkraflugi í landinu.