141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

útboð á sjúkraflugi.

[16:25]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Mýflug var eina fyrirtækið sem bauð í þetta verkefni fyrir allt landið svo að það er ekki skrýtið að þeir hafi verið lægstir. Hitt var ekki tekið gilt.

Ég get alveg staðfest að það hefur verið ranglega sagt að ráðherra hafi lofað einhverri niðurstöðu, en ráðherra sagði að það yrði tryggt að sjúkraflugvélin sem er rekin í Vestmannaeyjum gæti boðið í verkefnið. Það sagði hann. Það er ekki loforð, það er alveg klárt. Þannig var það orðað. Þá taka menn mark á því.

Þetta þarf að gera: Það er ekki verið að tala um að fjölga sjúkraflugvélum, vélin er til staðar, búin að vera sjúkraflugvél í 15 ár og sinna Vestmannaeyjum mjög vel sem þýðir að hún hefur bjargað mörgum mannslífum því að oft er ekki hægt að lenda í Vestmannaeyjum þó að hægt sé að taka á loft þaðan. Til þessa verður að taka tillit. Þess vegna óska ég eftir því að ráðherra geri nú (Forseti hringir.) gangskör að því að setja í gang þessa vinnu. Við reyndum að fylgja því eftir síðastliðið sumar, það voru engin viðbrögð frá ráðuneytinu, frá embættismönnum ráðherrans, (Forseti hringir.) og þess vegna óska ég eftir því með fullri vinsemd að ráðherrann fylgi þessu eftir. Ávallt viðbúinn.