141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

ívilnanir vegna stóriðju á Bakka.

[16:32]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er auðvitað ekki svar við spurningu minni, enn og aftur. Hæstv. ráðherra ýjar að því að ég muni þurfa að spyrja aftur og aftur. Það hlýtur að vera krafa þingsins að ráðherrar gefi skýr svör um þau mál sem verið er að spyrja um. Það liggur fyrir að þarna er verið að fara í mikla uppbyggingu á stóriðju. Frumvarpið er lagt fram af leiðtoga hæstv. ráðherra Svandísar Svavarsdóttur, hæstv. atvinnuvegaráðherra Steingrími J. Sigfússyni. Ég spyr enn og aftur: Er umhverfisráðherra, eins og ég skil það, andvígur málinu? Ég kýs að skilja orð hennar þannig, nema hún leiðrétti mig, að hún setji mikinn fyrirvara við málið og sé þannig andvíg því.

Það hangir mikið á spýtunni. Þetta er fyrsta skrefið í mikilli uppbyggingu. Fyrirtækið hefur þau áform að stækka verksmiðjuna tvöfalt eftir einhvern tíma. Það hefur borist erindi til fjárlaganefndar frá öðru sambærilegu fyrirtæki, (Forseti hringir.) Thorsil, sem fer fram á sambærilega afgreiðslu á ívilnunarsamningum. Ég óska eftir því að hæstv. umhverfisráðherra gefi mér skýr svör. Má ég skilja orð hennar þannig að hún sé á móti þeirri uppbyggingu á Bakka við Húsavík eða styður hún málið sem hæstv. atvinnuvegaráðherra hefur lagt fram?