141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

ívilnanir vegna stóriðju á Bakka.

[16:33]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er svo að á yfirstandandi þingi og í tíð núverandi ríkisstjórnar hafa verið stigin mörg og mikilvæg skref í þá veru að tryggja skýrari ramma að því er varðar ívilnanir fyrir fyrirtæki og uppbyggingu. (JónG: Ég er ekki að spyrja um það.) Við höfum viljað hafa þær reglur skýrar og það hefur skipt miklu máli að ekki sé um að ræða tilviljanakenndar ákvarðanir hvað varðar einstök uppbyggingarsvæði. Þarna er um að ræða fleiri störf á megavött en hafði verið gert ráð fyrir varðandi álversuppbyggingu, það er jákvætt. Um að ræða slíka breytingu á lagaumhverfi að viðkomandi fyrirtæki þarf að kaupa losunarheimildir, það er jákvætt. Hins vegar þarf ívilnanaáætlunin hér að standast ríkisfjármálaáætlun og um ræðir töluvert fé úr opinberum sjóðum, úr ríkissjóði. Ég vænti þess að við hv. þingmaður deilum áhuga á því að öll útgjöld úr ríkissjóði séu vel ígrunduð.