141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[16:40]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta er ágætismál og dæmi um þá eindrægni sem stundum ríkir í störfum þingsins. Þetta er frumvarp til laga um breytingu á tollalögum sem allir nefndarmenn, níu talsins, í efnahags- og viðskiptanefnd standa heils hugar á bak við án nokkurs fyrirvara svo það sé sagt. Frumvarpið rífur ekki upp andagiftina í manni eða kveikir mikinn innblástur en það fjallar um að dreifa gjalddögum á álögðum aðflutningsgjöldum og vörugjöldum vegna uppgjörstímabila á því ári sem stendur yfir.

Málið hefði átt að taka fimm til tíu mínútur í þinginu en var rætt af mikilli andagift í sex klukkutíma af einörðum stuðningsmönnum málsins sem tókst að leggja sitt af mörkum til að tefja framgang þess í þinginu. En ég er ánægður með þá miklu samstöðu sem ríkti um málið bæði í nefndinni og þingsalnum og tel að það sé merki um bjartari tíð í þingstörfunum.