141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

vörugjald og tollalög.

619. mál
[16:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér er um lítið en mikilvægt mál að ræða. Fyrir jólin samþykktum við breytingar tengdar svokölluðum sykurskatti. Hér er um að ræða breytingar á því máli sem fela það í sér að koma til móts við hagsmunaaðila og líka við ábendingar tollstjóra til að bæta málið. Er sjálfsagt að verða við þeim og gott að nefndin hefur afgreitt málið frá sér með þeim mikilvægu breytingum sem þar eru. Þær eru eingöngu til að bæta málið að ósk þeirra sem greiða þurfa þessa tolla og líka að beiðni tollstjóra til að einfalda málið og gera það betra á alla lund. Því legg ég til að frumvarpið verði samþykkt og vonast til þess að um breið samstaða verði um það í þessum sal.