141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

vörugjald og tollalög.

619. mál
[16:47]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Farið var fram með málið fyrir jól þar sem því var lýst að hér væri um mál að ræða sem ná ætti ákveðnum lýðheilsumarkmiðum og væri til þess fallið að einfalda vörugjaldakerfið. Eftir að hafa skoðað málið er niðurstaða mín sú að þetta hlýtur að vera einhver svartur húmor hjá ríkisstjórnarflokkunum því að málið nær þeim markmiðum að lækka verð á karamellum og súkkulaði og síðan er það orðið svo flókið að þrátt fyrir ágæta yfirlegu fyrir jólin sitjum við uppi með handónýtt mál og erum að hamast við að reyna að laga það, enda er hér farin leið sem aðrar þjóðir hafa gefist upp á. Það er ekki nokkur einasta leið að taka þátt í þessari vegferð ríkisstjórnarflokkanna þannig að ég legg til að menn greiði ekki atkvæði með málinu.